Forgangsatriði fyrir Man Utd að fá Gyökeres - Zirkzee til Aston Villa?
   fös 16. september 2011 08:30
Aðsendir pistlar
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Leikja- og mótafyrirkomulag í yngstu flokkunum
Aðsendir pistlar
Aðsendir pistlar
Þórhallur Siggeirsson.
Þórhallur Siggeirsson.
Mynd: Úr einkasafni
Úr leik í 5. flokki.
Úr leik í 5. flokki.
Mynd: Fótbolti.net - Kristján Orri Jóhannsson
Mynd: Fótbolti.net - Kristján Orri Jóhannsson
Nú fer að hefjast nýtt knattspyrnutímabil í yngstu flokkunum á Íslandi. Mörg mót eru haldin í 7 manna bolta fyrir þessa iðkendur en fyrirkomulag þeirra hefur verið með sama sniði í fleiri, fleiri ár.

Knattspyrnusamband Íslands heldur einnig Íslandsmót fyrir þessa flokka að utanskildum 7. flokki. Mót þar sem margir þjálfarar leggja mikið kapp á að sigra, enda titillinn Íslandsmeistari eftirsóttur.

Það er hins vegar fyrirkomulag þessa móta sem vekur upp spurningar hjá mér. Viðmiðunarstærð á knattspyrnuvelli í mótum á vegum KSÍ fyrir 6. flokk karla (3. og 4. bekkur grunnskóla) er hálfur stór völlur (68m x 52,5m). Sem dæmi er, að ef 9 ára leikmaður spilar út á kanti, fær boltann frekar aftarlega á vellinum og ætlar að bruna upp kantinn, á hann fyrir höndum sér um 50 m ferðalag með boltann framundan. Ekki nóg með það, ef hann kemst upp kantinn og ætlar að gefa fyrir markið, þarf sendingin væntanlega að vera um 25 metrar. Leiktíminn er síðan 2 sinnum 15 mínútur.

Hver er hugmyndafræðin bakvið þennan leik? Hvað eiga þjálfarar að þjálfa til að liðið sigri leiki og mót? Getur verið að það sé verið að hampa leikmönnum vegna stærðar, hlaupagetu, spretthraða og styrk frekar en tæknilegri getu og útsjónarsemi? Það er kannski ekki skrítið að styrkleikar íslenskra leikmanna í gegnum tíðina hafa oft á tíðum verið líkamlegir þættir? Er KSÍ að senda rétt skilaboð til iðkenda, þjálfara og annarra mótshaldara með þessu mótafyrirkomulagi?

Ég gerði könnun á mismunandi leikjafyrirkomulagi í B.Sc. ritgerð minni í Íþróttafræði í Háskólanum í Reykjavík nú á vormisserum. Þar voru leikir og samanburðarleikir teknir upp í 5., 6. og 7. flokki og greindir. Þar bar ég saman tæknilega þætti og atriði sem fram komu í leikjum með því að spila 5 leikmenn á móti 5, 7 leikmenn á móti 7 og 8 leikmenn á móti 8, á mismunandi stórum völlum í flokkunum.

Kostir þess að spila 5 leikmenn á móti 5 á minni velli í 6. og 7. flokki reyndust töluverðir, hver leikmaður sendi fleiri sendingar, lenti oftar í leikstöðunni einn á móti einum, framkvæmdi fleiri gabbhreyfingar, snerti boltann oftar og skoraði fleiri mörk o.s.frv. Í 5. flokki var munurinn á ofantöldum þáttum sáralítill frá því að spila með 7 eða 8 í liði, en hins vegar má velta fyrir sér hvort 8 leikmenn á móti 8 gæti undirbúið leikmenn leikfræðilega betur undir 11 manna bolta sem síðan er spilaður í 4. flokki.

Hægt er að lesa og skoða ritgerðina á eftirfarandi slóð: http://hdl.handle.net/1946/9851

Hákon Sverrisson, einn af okkar betri yngri flokka þjálfurum hefur verið frumkvöðull í að spila 5 leikmenn á móti 5 á litlum völlum og er þetta fyrirkomulag augljóslega kyndill sem fleiri þjálfarar þurfa að bera á lofti.

Íslensk knattspyrna er í framþróun enda væri annað undarlegt. Tilgangur þessara skrifa er að sjálfsögðu ekki að lasta stöðu knattspyrnunnar á Íslandi heldur til að vekja umræðu. Við sjáum að í A-landsliðinu er verið að skipta út gömlum baráttujöxlum fyrir yngri og tæknilega betri leikmenn. Hins vegar má ávallt gera betur.

Áætla má að með tilkomu knatthalla víðsvegar um landið sé grunntækni leikmanna að batna. Við sjáum þannig að yngri landslið Íslands eru að ná sínum besta árangri með kynslóðum tæknilega góðra leikmanna sem hafa æft á gervigrasi upp alla yngri flokkana. Eyjólfur Sverrisson þjálfari U21 landsliðs Íslands hefur meðal annars sagt um lið sitt: „Lykillinn að því að við eigum svo marga afbragðsgóða íþróttamenn í dag, er að grunnurinn er góður”

Nú þegar yngri landsliðin eru að nálgast aðrar Evrópuþjóðir í getu, má velta því fyrir sér hvort að breyting á leikja- og mótafyrirkomulagi í yngstu flokkunum bæði hjá félögunum sjálfum og hjá KSÍ, myndi hjálpa okkur enn frekar við að stíga skrefið nær þessum þjóðum. Með meiri áherslu á tæknilega þætti þar sem allir þátttakendur upplifa það að verjast og sækja í sama leiknum. Þar sem hver og einn fær fleiri snertingar á boltann og getur þróað sinn leik án þess að þurfa að hafa hugann við úrslit í leikjum og á mótum. Því þegar heildarmyndin er skoðuð þá skipta úrslit í yngri flokkunum litlu máli. Ég held til að mynda að Hólmari Erni Eyjólfssyni sé nokk sama í dag þótt hann hafi fallið úr A-deild þegar hann spilaði í 4. flokki eða Kolbeini Sigþórssyni að hafa fallið niður í C-deild með 2. flokki HK.

Spurningin er því, hvaða leikja- og mótafyrirkomulag hentar best til þess að æfa grunntæknina? Hvaða fyrirkomulag undirbýr leikmenn best fyrir 11 manna bolta? Er núverandi leikja- og mótafyrirkomulag jafnvel orðið barn síns tíma?

Þórhallur Siggeirsson
banner
banner
banner