Smá hugleiðing um landsliðsþjálfun
Á undanförnum vikum hefur verið farið mikinn í umræðunni um íslenska landsliðið og sennilega helst um þjálfarann. Mig langar aðeins að tja mig um það málefni í tilefni þess að Ólafur Jóhannesson er á leið í sitt síðasta verkefni með A-landsliðinu - í bili allavega.
Þann 7.október mun íslenska landsliðið ljúka þáttöku sinni í undirbúningi fyrir EM 2012, með því að leika gegn einni bestu fótboltaþjóð í Evrópu, Portugal í borginni Guimares.
Ég held ég tali fyrir munn allra sem leikið hafa fótbolta á Íslandi að ég væri mikið til í að skipta við þá 11 - 14 leikmenn sem fá þann heiður að spila fyrir hönd eyjunnar okkar þennan dag, æðsti heiður fótboltamanns ER að fá að spila slíka leiki. Það má vel vera að menn fái betur borgað annars staðar fyrir að spila en landsliðið er hámark heiðursins.
En ég kom líka að þjálfun í íslenskum bolta og þá er það spurningin, væri ég til í að vera í skóm Ólafs (sem ég ætla að fá að kalla Óla Jó í þessum pistli) og Péturs?
Þar er svarið ekki eins afdráttarlaust í fyrstu atrennu... Hvers vegna má það eiginlega vera? Pæli aðeins í því...
Íslenska fótboltalandsliiðið hefur tekið allskonar skref frá því ég fór að fylgjast almennilega með því, upp úr 1980. Fyrsti landsliðsþjálfarinn varð síðar samstarfsmaður minn, goðsögn sem þjálfari og persóna, Jóhannes Sandjólm Atlason. Þetta var á þeim tíma þar sem erfitt var að fá íslenska atvinnumenn heim frá liðunum sínum og landsliðin okkar voru full af baráttujöxlum. Við eyddum um 85% leiktímans vanaalega í vörn og fögnðum hverju stigi eins og meistaratitli.
Við áttum fáa atvinnumenn, en þeir voru þó ansi margir að spila lykilhlutverk í öflugum liðum á evrópskan mælikvarða. Voru hágæðaleikmenn!
Smám saman fjölgaði í atvinnumannahópnum okkar, við áttum fullt af atvinnumönnum. En þó má nú kannski segja líka að eðli atvinnumennskunnar breyttist. Leikmenn fóru til "minni" landa, t.d. á Norðurlöndunum og "minni" liða í sterkari löndunum. Þó voru vissulega leikmenn sem voru í góðum liðum í góðum deildum - jafnvel lykilmenn meistaraliða.
Á þeim tímapunkti náðum við háklassaárangri. Ég á ekki skemmtilegri minningu sem áhorfandi en þá sem ég eignaðist í 2-2 stöðunni gegn Frökkum í París. Söng þjóðsönginn alveg út í eitt þær mínútur sem sú staða stóð, með tugþúsundir þögulla heimamanna í kring. Það lið var hreint frábært, enda afburðaknattspyrnumenn á góðum stað ferilsins í flestum stöðum.
Frá því þann októberdag 1999 má kannski segja að leiðin hafi legið niðurávið, þó alltaf með smá "uppbeygjum" inn á milli.
Ég ætla ekki að láta eins og ég þekki lausnirnar, en mikið var ég sammála ráðningu Óla Jó sem landsliðsþjálfara þegar sú ráðning var tilkynnt. Á þeim tímapunkti var Óli búinn að búa til ótrúlega flott fótboltalið í Hafnarfirði, að mínu mati á réttan hátt. Lið sem varðist vel en vildi halda bolta og þorði að sækja.
Því mér fannst kominn tími á að við reyndum slíka nálgun í alþjóða fótbolta.
En ekki síður fannst mér Óli líklegur til að halda fast utan um liðið og skapa þann aga sem ég tel að hafi átt þátt í öllum bestu tímabilum íslensks landsliðs. Óli hefur ekki hikað við að standa með sínum áherslum og ég heyrði það frá fólki í kringum hann að það var hans ætlun að gera einnig sem þjálfari Íslands.
Því miður hefur Óli ekki náð að vinna eins marga leiki og við höfum viljað. Ég er 100% viss um það að enginn Íslendingur er eins fúll með það og Óli Jó. Hann þolir ekki að tapa, það reyndi ég sjálfur sem ungur maður að æfa fótbolta hjá honum sem spilandi þjálfari hjá FH um 1990. Enginn hefur tekið nær sér slakar frammistöður og útkomur en hann, því hann er bara drifinn áfram af metnaði og vinnusemi.
Æfingarnar hans eru ekki flóknar, en þar er mikil keppni og ég held að taktísk hugsun sé einna öflugust í kolli Óla, það sást afskaplega vel hjá FH.
En hvað hefur þá klikkað?
Eitt hefur verið ljóst frá fyrsta degi, Óla líður betur á æfingavellinum en á blaðamannafundum. Í þeim sirkus líður honum ekki vel og hefur oft verið bara hundfúll og heitur að svara spurningum sem oft eru þess eðlis að verið er að leita að fyrirsögnum. Því miður hefur honum stundum tekist að búa þær til...
Og í staðinn fengið óvægna gagnrýni, byggða á væntingavísitölu sem orðið hefur til undanfarin ár. Er sú vísitala raunsæ? Ég er ekki viss, ég er hjartanlega sammála Óla þegar hann minnir okkur á að við erum smáþjóð í fótbolta. Það þótti okkur öllum eðlilegt þegar Jói Atla var að stýra liði mikið til áhugamanna en núna erum við farin að gera "kröfur um sigur" og notum stór lýsingarorð þegar við getum verið neikvæð.
En er innistæða fyrir væntingum, um öfluga baráttu í næsta riðli og svo þátttöku á EM 2016?
Mitt mat er það að til að svo megi verða þurfi okkar unga og efnilega kynslóð að stíga skrefið og við eignumst hágæðaleikimenn á evrópskan mælikvarða þar sem við sjáum leikmenn sem keppa í bestu deildum álfunnar, vonandi í bestu liðunum. Þar erum við að sjá skref í rétta átt. Gylfi í Þýskalandi núna, Kolbeinn að byrja sterkt hjá Ajax og auðvitað Grétar hjá Bolton, auk þess sem lið eins og Hearts og FC Kaupmannahöfn hafa öflugan sess í sínum deildum.
Þess vegna verður fróðlegt að horfa á framgang leikmanna U-21s árs liðsins frá í sumar, það er ekki sjálfgefið að þeir nái að halda í við jafnaldra sína bara af því að þeir eru orðnir atvinnumenn. Það er ferlegt að horfa upp á þá utan liðs, eða jafnvel hóps víðs vegar um Evrópu, ef sú verður raunin er ljóst að við getum ekki reiknað með því að landsliðið verði sjálfkrafa öflugra en það er.
Hvað um umgjörðina og agann? Það kom mér satt að segja á óvart hversu lengi einhverjir reyndu að vefengja ákvörðun Óla varðandi agabrot í síðasta landsleikjahléi. Skyndilega var farið að tala um "eðlileg" mörk "fullorðinna" og jafnvel að "það er nú ekki skrýtið að menn brjóti agareglur". Sem betur fer sá leikmaðurinn að sér og baðst afsökunar á framferði sínu. Enda óafsakanlegt að knattspyrnumenn sem komnir eru í þá stöðu að spila fyrir Ísland láti sér detta slíkt framferði í hug, hvað þá að framkvæma það.
Á sama hátt kom mér á óvart hversu hljótt varð um ákvörðun eins félagsliðsins á Íslandi að setja leikmann sinn í agabann í kjölfar landsliðsverkefnis, sem var hans fyrsta fyrir A-landslið.
Svo kannski er þetta allt ástæða þess að það er ekki eins öruggt að maður vilji verða landsliðsþjálfari eins og landsliðsmaður. Þegar maður sér að einn hæfileikaríkasti þjálfari Íslands fær óvæga gagnrýni fyrir að vinna í anda þess sem hann réð sig til, með því að reyna að nota sínar áherslur til að færa leik liðsins á efri stall.
Hvað þá ef að hann þarf að eyða drjúgum tíma sínum í atvik sem eiga ekkert skylt við íþróttina sjálfa, heldur óásættanlega hegðun fullorðinna íþróttamanna!
Er kannski kominn tími til að hætt verði að horfa á þjálfarana sem upphaf og endi alheimsins hjá íslenska landsliðinu og í staðinn reyna að aðstoða við það að smíða stemmingu og umgjörð sem gæti leitt af sér frekari árangur? Ég vona það og eggja áhrifamenn í íslenskum fótbolta OG metnaðarfulla íþróttablaðamenn til að hugsa um það þegar þeir hafa kvatt Óla Jó að morgni 8.október.
Ég er handviss um það að forysta KSÍ ætlar sér að ná árangri með landsliðið og ætla því ekki að skipta mér af hvert er leitað. Ég veit að þeir eru að leita að manni sem hefur metnað til að leiða íslenskt landslið út á völlinn til að berjast til síðasta manns og gleðja þjóðina. Mann sem ætlar sér að halda fast um taumana og sjá til þess að þeir sem eru valdir leggi sig fram, mann sem fyllist stolti við það að standa í úlpunni með fánann á brjósti þegar hann hlustar á íslenska þjóðsönginn.
Ég tel auðvitað líklegra að finna þessa eiginleika hjá íslenskum þjálfurum, en ef að hægt er að finna hæfan þjálfara sem tikkar í þessi box styð ég þá ráðningu.
Alveg eins og ég var himinlifandi þegar Óli Jó var ráðinn, um leið og ég þakka honum fyrir sín störf. Ég þarf ekkert að óska honum góðs gengis, ég er sannfærður um að það munu mörg lið óska hans starfskrafta þegar þessu verkefni hans í Guimares lýkur!