Kári Örn Hinriksson skrifar:
Eigendur knattspyrnufélaga eru jafn misjafnir og þeir eru margir. Það eru til eigendur sem eru alvöru knattspyrnuaðdáendur og njóta andrúmloftsins á leikdegi en aðrir eru eingöngu í þeim erindagjörðum að græða pening, þvo peninga, ráðskast með fólk eða gera sig að fífli. Það er í raun merkilegt, hvað mikið af ríkum heimskum mönnum hafa flætt inn í knattspyrnuna.
Þessi grein er tileinkuð ösnunum sem keyptu mitt ástkæra félag, Manchester United og steyptu félaginu í skuldir. Hún er tileinkuð klikkhausunum sem gáfu Rafa Benitez lausan tauminn til að kaupa 76 leikmenn á fimm ára tímabili og hún er líka tileinkuð feita kallinum sem á Newcastle og laug því að öllum að hann drykki bara óáfengan bjór.
Hvar annarstaðar er hægt að byrja en á Venkys. Þegar að þessi indverski fjárfestingahópur keypti Blackburn Rovers í nóvember 2010 var það gefið út að ekkert myndi breytast. Félagið myndi halda áfram eins og það hefði gert áður undir stjórn Sam Allardyce. Það gekk þó ekki lengi og örfáum vikum seinna var búið að reka Stóra Sam og maður með enga reynslu af knattspyrnustjórnun var fengin í starfið, Steve Kean.
Í janúarglugganum varð Blackburn svo að aðhlátursefni í knattspyrnuheiminum þegar að félagið reyndi að fá Ronaldinho og David Beckham til Lancashire þvert á vitneskju nýja knattspyrnustjórans. Hópurinn var svo ekki styrktur af neinu ráði í sumar og eftir vægast sagt lélegt gengi á þessu tímabili og vaxandi óánægju meðal stuðningsmanna liðins höfðu Venkys plön uppi um að bjóða stuðningsmönnum Blackburn upp á mögulega, það eina sem var leiðinlegra en að horfa á liðið spila knattspyrnu, fría tónleika með Akon og Kelly Rowland á heimavelli liðsins. Plön um tónleikana hafa verið slegin af borðinu en liðið situr ennþá í fallsæti í ensku deildinni.
Það væri ekki hægt að skrifa grein um misheppnaða eigendur nema kaupýslumaðurinn og fyrrverandi eigandi og stjórnarformaður Newcastle, Freddy Shepherd, sé nefndur. Mike Ashley er kannski umdeildur í Norður-Englandi, en Shepherd er hataður, og það af góðri ástæðu, mörgum ástæðum í raun. Þetta er maðurinn sem rak Sir Bobby Robson eftir aðeins fjóra leiki á tímabilinu, sama Bobby Robson og tók við Newcastle á botni ensku úrvalsdeildarinnar og tveimur árum seinna hafði hann komið liðinu í Meistaradeild evrópu.
Stærstu mistök Freddy voru samt óumdeilanega þegar að Mazher Mahmood, blaðamaður á fyrrum blaðinu News Of The World plataði hann illilega í skandal sem fékk nafnið „The fake sheikh“ í enskum götublöðum. Þar þóttist Mahmood vera arabískur prins sem vildi stunda viðskipti við Freddy. Þeir hittust á vændishúsi þar sem þeir fengu sér aðeins í aðra tánna. Þá byrjaði Freddy að láta gamminn geysa um Newcastle og Mahmood náði að draga ýmsilegt upp úr honum. Hann gerði grín að stuðningsmönnum Newcastle fyrir að eyða peningum í dýrar treyjur og annan varning tengdan liðinu. Hann gerði grín að kvenkyns stuðningsmönnum liðsins og líkti þeim við hunda og endaði svo á því að kalla Alan Shearer „Mary Poppins fótboltans“.
Þessu náði Mahmood öllu á hlerunartæki og úr varð stór skandall sem skaðaði Newcastle United. Upp úr þessu bjuggu stuðningsmenn margra liða söngva sem beint var að Shearer, honum örugglega til mikils ama. Til gamans má geta að Mahmood notaði þetta gervi aftur nokkrum árum seinna og var Sven-Göran Eriksson þá fórnarlambið.
Ken Richardson var eigandi Doncaster Rovers á tíunda áratug síðustu aldar, honum var lýst af rannsóknarlögreglumanni nokkrum sem „gaur sem myndi lemja lítið barn yfir krónupening“. Árið 1995 fékk Ken neitun frá borgaryfirvöldum í Doncaster fyrir því að byggja nýjan leikvang og ákvað að taka til sinna ráða. Hann réð tvo fyrrverandi sérsveitarmenn til þess að kveikja Belle Vue, þáverandi leikvangi liðins. Þeim tókst að kveikja í smá hluta leikvangsins áður en þeir flúðu, en annar þeirra gleymdi gsm- símanum sínum á vettvangi og eftirleikurinn var auðveldur fyrir lögregluna. Fyrir þetta fékk Ken fjögur ár í fangelsi. Hann var þó ekki hættur og á meðan að hann afplánaði dóminn réði hann Mark Weaver, sem áður hafði starfað á búðarkassanum í verslun liðsins, sem þjálfara.
Gigi Becali varð ríkur á því að kaupa land af rúmenska hernum fyrir pening sem hann þóttist eiga og seldi svo landið fyrir margfalt það sem hann keypti það á. Þetta tókst og í kjölfarið festi hann kaup á meirihluta í Steaua Bucarest. Þar hefur hann stjórnað með harðri hendi síðan árið 2003. Á þessum 9 árum sem hann hefur átt Steaua hefur hann skipt 19. sinnum um þjálfara. Oftast nær vegna þess að þjálfararnir vilja ekki leyfa honum að velja liðið eins og frægt varð með Gheorghe Hagi árið 2007.
Gigi sagði eitt sinn að hann myndi reka hvaða þjálfara sem er sem myndi velja framherjan Dorel Zaharia í liðið, en rúmlega viku síðar, eftir að Dorel hafði sett þrennu í bikarleik var allt annar tónn í Gigi. „Hann er magnaður leikmaður, hann á eftir að verða stjarna og framtíð hans er í Steaua“.
Gigi hefur ýmsilegt misjafnt á stefnuskránni, hann kallaði svartan sjónvarpsmann einu sinni apa, hann lét mála fyrir sig eftirmynd af síðustu kvöldmáltíðinni, fræga málverkinu hans Leonardo Da Vinci þar sem hann er í hlutverki Jesú og lærisveinarnir eru leikmenn og þjálfari Steaua. Hann stoppaði líka kaup á leikmanni til Steaua því hann hafði grun um að leikmaðurinn væri samkynhneigður og lét hafa eftir sér „ég myndi frekar leysa Steua Bucharest upp heldur en að leyfa samkynhneigðum leikmanni að spila fyrir liðið“.
Gigi missti líka einu sinni út úr sér í viðtali að hann væri ekki „siðmenntaður maður“ eins og hann orðaði það, ég held að fáir séu ósammála honum. Gigi situr þessa daganna á Evrópuþinginu fyrir hönd Rúmeníu, þar beitir hann kröftum sínum gegn gyðingum, samkynhneigðum og kvennfólki.
Kári Örn Hinriksson
@kariorn
Athugasemdir