Íslandsmeistarar FH töpuðu óvænt á heimavelli gegn Fjölni í kvöld. Þetta er í fyrsta sinn sem Fjölnir vinnur FH í alvöru mótsleik.
Lestu um leikinn: FH 1 - 2 Fjölnir
„Um leið og þessi frétt kom á Fótbolta.net um að Fjölnir hefði ekki unnið FH síðan 2008 þá var það skrifað í skýin að Fjölnir myndi vinna þennan leik. Leikmannahópur FH í dag ræður ekki við svona frétt," sagði Heimir í áhugaverðu viðtali eftir leikinn.
„Hugarfarið sem kom inn á völlinn var ekki nógu gott. Það var greinilegt að við vorum að vanmeta þetta verkefni. Allir sem fylgjast með fótbolta vita að Fjölnir er mjög gott lið."
„Við eigum leik gegn KR næst og við þurfum að laga fullt af hlutum fyrir þann leik. Við þurfum að finna betri lausnir á því sem við erum að gera, bæði varnarlega og sóknarlega."
FH byrjaði í 3-4-3 í kvöld en skipti yfir í 4-3-3 í seinni hálfleik.
„Eftir að við breyttum vildum við fara meira út á vængina. Við náðum að skora en eftir markið datt þetta í sama farið aftur."
Heimi tókst ekki að landa varnarmanni fyrir lok gluggans. Voru það mikil vonbrigði?
„Það voru vonbrigði en jákvæðar fréttir að Pétur (Viðarsson) byrjar að æfa á morgun. Eins og menn vita þá hugsar hann vel um sig og verður fljótur að koma sér í stand."
Athugasemdir