Ívar Örn Jónsson gekk í dag í raðir Valsmanna frá Víkingi Reykjavík. Ívar skrifaði undir þriggja ára samning við Íslandsmeistarana.
„Ég heyrði fyrst af alvöru áhuga í gær og svo fór allt á fullt í dag og þetta kláraðist á stuttum tíma. Ég var að horfa til þess að breyta um umhverfi á ferlinum og fara í meiri samkeppni," segir Ívar.
Ívar er vinstri bakvörður og fer í alvöru samkeppni við hinn reynslumikla Bjarna Ólaf Eiríksson sem var einn besti leikmaður Íslandsmótsins í sumar.
„Bjarni er frábær leikmaður og það virðist ekkert vera að hægjast á honum þrátt fyrir aldurinn. Samkeppni er af hinu góða og þetta er skrefið sem ég þarf að taka. Góð lið vilja hafa mikið af möguleikum."
Ívar ætti að gefa Völsurum meiri vídd og gæti hann spilað sem vængbakvörður í 3-5-2 sem dæmi.
„Það er hausverkur fyrir Óla og Bjössa að ákveða það. En það er möguleiki og það er gott að geta brugðist við mismunandi stöðum með mismunandi lausnum."
Ívar segir að sér hafi liðið vel í Víkingi innan vallar og utan og það hafi ekki verið auðvelt að kveðja Víkingana.
Sjáðu viðtalið í heild sinni í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir