,,Við vorum svolítið þreyttar í dag, við virkum þreyttar í seinni hálfleik þó við værum manni fleiri. Breiðablik var að spila á föstudaginn á móti KR þegar við hvíldum. Þetta er mjög slæmt," sagði Dragan Stojanovic þjálfari Þór/KA eftir 3-2 tap gegn Breiðablik í kvöld þó svo liðið hafi verið manni fleiri lungan af leiknum.
,,Eins og ég hef sagt áður í öðrum viðtölum, það var bara aumingjaskapur hjá okkur að hafa ekki klárað leikinn."
,,Við vorum fleiri og þær fá færi og sýna karakter og svona en samt fengum við miklu fleiri færi í þessum leik, við klúðruðum fjórum dauðafærum einn á móti markmanni. Ef við klárum ekki fjögur dauðafæri þá getum við ekki unnið leikinn."
,,Auðvitað er þetta mjög slæmt en við gefumst ekki upp. Við verðum að rífa okkur upp, við fáum ekki mikinn tíma. Við komum aftur í Reykjavík á laugardaginn og spilum í undanúrslitum á móti Val, sem er mikilvægur leikur og mjög erfiður. Við verðum að jafna okkur eins hratt og við getum."























