,,Það er ekki oft sem maður vinnur hérna, ég held að þetta sé í fyrsta skipti, ég man ekki eftir að hafa unnið hérna áður. Við vorum að tala um það ég og Scotty. Hann er búinn að vinna hérna einu sinni og er örugglega búinn að spila hérna tíu sinnum. Þetta er erfiður heimavöllur og það er alltaf gott að vinna hérna," sagði Hafþór Ægir Vilhjálmsson leikmaður Grindavíkur við Fótbolta.net eftir 1-0 sigur liðsins á ÍBV í dag
Hafþór Ægir skoraði eina mark leiksins í fyrri hálfleik en hann fékk þá stungusendingu og náði að komast framhjá Alberti Sævarssyni í markinu áður en hann skoraði.
,,Ljótt var það en mark er mark, þetta eru þrjú stig og þetta mun hjálpa okkur í fallbaráttunni."
,,Við eigum Breiðablik næst og við ætlum að vinna hann og sjá í hverju það skilar sér. Ef það skilar sér í einhverjum sætum ofar þá er það mjög gott en við einblínum bara á næsta leik."
Hér að ofan má sjá viðtalið í heild sinni.























