
„Þetta var hörkuleikur en við gerðum okkur þetta erfitt fyrir," sagði Bjarki Aðalsteinsson, varnarmaður Grindavíkur, eftir 0-3 tap gegn Aftureldingu í Lengjudeildinni.
Lestu um leikinn: Grindavík 0 - 3 Afturelding
Grindavík var taplaust fyrir leikinn og hafði ekki fengið á sig mark í deildinni en þeim var skellt aðeins niður á jörðina á heimavelli sínum. Þeir fengu loksins á sig mark, og í fleirtölu.
„Mér fannst við ná að stíga vel upp í seinni hálfleik og áttum fín færi þá. En þetta var erfiður róður þegar við erum manni færri," sagði Bjarki.
„Við gerðum okkur erfitt fyrir og því fór sem fór. Við fengum rautt spjald snemma og það gerði okkur erfitt fyrir. Rauð spjöld hafa áhrif á leiki. Þetta endaði eins og þetta endaði, en mér fannst seinni hálfleikurinn flottur."
Um rauða spjaldið, sem Guðjón Pétur Lýðsson fékk, sagði Bjarki: „Ég sá bara eitthvað hnoð fyrir utan völlinn. Úr verður eitthvað fíaskó sem endar með rauðu spjaldi. Ég sá ekki meira."
„Við vissum að við vorum ekki að fara taplausir í gegnum tímabilið. Þessi leikur þróaðist eins og hann þróaðist, og við töpuðum. Það er bara næsti leikur sem er í bikarnum og það verður ógeðslega gaman."
Hægt er að sjá allt viðtalið hér að ofan.
Athugasemdir