Bikarmeistarar Fram mæta JK Nomme Kalju frá Eistlandi í forkeppni Evrópudeildarinnar í kvöld. Um er að ræða fyrri leik liðanna. Arnþór Ari Atlason leikmaður Fram er spenntur fyrir komandi verkefni sem er ekki enn búinn að ná tökum á nafninu á andstæðingunum.
,,Nafnið er aukaatriði. Ég veit að þetta er mjög gott lið. Þeir eru ofarlega í deildinni í Eistlandi og eru með flotta leikmann. Þetta verður virkilega erfitt verkefni og skemmtilegt samt sem áður," sagði Arnþór Ari sem segist vera búinn að "gúggla" liðið aðeins.
,,Það er einhver huggulegur Japani í holunni hjá þeim, hann er hvað hættulegastur hjá þeim. Þeir eru líka með Brassa og það er alltaf ávísun á eitthvað sexý þegar Brassi er í liðinu."
Fram-liðið er með mikið breytt lið frá síðustu árum og fáir í liðinu sem hafa tekið þátt í Evrópukeppninni.
,,Menn eru spenntir og vel gíraðir fyrir þetta verkefni. Það eru ekki margir í liðinu sem hafa spilað Evrópuleiki áður. Ég hef sjálfur beðið eftir þessu tækifæri mjög lengi. Maður fær ekki oft tækifæri til að spila svona leiki. Ég er orðinn mjög spenntur," sagði Arnþór Ari leikmaður Fram.
Leikurinn hefst klukkan 19:15 og fer fram á Laugardalsvelli.
Viðtalið í heild sinni er hægt að sjá í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir