FH og Keflavík áttust við í 6. umferð Bestu deildar karla í kvöld þar sem FH vann leikinn 2-1. Úlfur Ágúst Björnsson var einn af markaskorurum leiksins og kom í viðtal eftir leik.
Lestu um leikinn: FH 2 - 1 Keflavík
„Þetta var bara fínn leikur í heildina, fínt að koma til baka eftir tapið í seinustu viku og ná sigri. Sérstaklega á Kaplakrikavelli."
FH hefur leikið sína heimavelli á varavelli sínum en spiluðu í kvöld sinn fyrsta leik á Kaplakrikavelli.
„Þetta var geðveikt sko og stuðningurinn líka bara til fyrirmyndar. Við fundum það þegar við vorum komnir fyrir leik í upphitun að við værum tilbúnir í þetta og vorum með fólkið með okkur þannig þetta var bara geggjað."
Úlfur er núna kominn með 2 mörk í deildinni en hans markmið er að skora fleiri.
„Ég ætla nú að setja fleiri en ég setti í fyrra, það voru bara einhver fimm. Ég ætla nú að setja nokkur, svona 8-9 ég væri sáttur með það."
FH fer upp í fjórða sætið að minnsta kosti tímabundið með þessum sigri og eru með 10 stig. En þær hafa verið misgóðar frammistöðurnar hjá liðinu.
„Við erum allt annað lið en í fyrra og það er bara grafið og gleymt. Við stefnum bara hátt, við erum með lið sem getur gert góða hluti og eins og þú sérð þá getum við alveg spilað fótbolta. Við gætum alveg farið topp 4."
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan, þar talar Úlfur nánar um hvernig það er að spila undir Heimi Guðjóns og samstarf hans og Kjartans Henry.























