Baldur Sigurðsson, miðjumaður KR, var að vonum svekktur eftir 1-0 tap liðsins gegn FH í Laugardalnum í kvöld.
„Þetta var bara hörkuleikur og svosum hægt að benda á marga hluti þegar við förum að leikgreina leikinn. En það var þetta eina mark sem skildi að í hörkuleik,“ sagði Baldur eftir leik.
Baldur vildi fá víti þegar hann féll í teignum en ekkert var dæmt. Atvikið átti sér stað í seinni hálfleik.
„Ég var tekinn þarna niður í vítateig og fannst þetta eiga að vera víti,“ sagði Baldur, sem fannst KR vanta herslumuninn í kvöld.
„Við byrjuðum vel fyrstu 15-20 og settum góða pressu og spiluðum eins og við ætluðum að gera, en svo slitnar þetta og við náum ekki að halda uppi pressunni og þeir komast í leikinn og skora. Svo falla þeir aftur og loka svæðum, og það þarf alltaf eitthvað extra til að setja mark á svona sterk varnarlið eins og FH, en það voru svona tvö vafaatriði sem hefðu getað fallið með okkur.“
KR hefur spilað tvo „heimaleiki“ í Laugardal og tapað þeim báðum. Baldur segir það ekki vera afsökun að spila á gervigrasinu, en viðurkennir að leikmenn sakni Frostaskjólsins.
„Að sjálfsögðu söknum við Frostaskjólsins, við fengum 31 af 33 stigum þar í fyrra, en við ætlum ekki að afsaka neitt.“
Athugasemdir























