
Rebekka Sverrisdóttir, fyrirliði KR, var að vonum svekkt eftir 2-1 tap gegn Aftureldingu. KR er á botni deildarinnar með bakið upp við vegg þegar þrjár umferðir eru eftir.
„Bara svekkt með úrslitin. Við ætluðum að koma hérna og taka þrjú stig og gefa vel í fyrir síðustu leikina. En heilt yfir ánægð með spilamennskuna, við vorum frá 50. mínútu einum færri og við héldum áfram að spila vel og skora á þær þannig heilt yfir er ég ánægð með frammistöðuna en óánægð með úrslitin," sagði Rebekka í viðtali eftir leik.
„Við spiluðum einum færri næstum því helminginn af leiknum en náðum samt að vera þéttar og skipuleggja okkur vel. Þær náðu að setja tvo bolta yfir okkur og skora tvö mörk á okkur en að sama skapi við skoruðum eitt mark og við vorum ekkert að gefast upp þótt við værum einum færri. Það var allt undir og við ætluðum að gefa allt, en já úrslitin féllu ekki með okkur."
Lestu um leikinn: Afturelding 2 - 1 KR
KR liðið hefur átt erfitt sumar þar sem þær voru óheppnar með leikjaniðurröðun, þjálfaraskipti og svo var tilkynnt fyrir helgi að Arnar Páll muni ekki halda áfram með liðið eftir tímabilið. Rebekka segir að sumarið sé búið að vera óvenjulegt.
„Það sem er frábært við þennan hóp er að það er góður mórall í hópnum og það er gaman að vera í þessum hóp, við erum að gera þetta fyrir hverja aðra og það er það eina sem skiptir máli. Það er hægt að finna allskonar afsakanir og auðvitað ef við hefðum fengið að velja leikjaniðurröðun þá hefðum við raðað þessu aðeins öðruvísi, en að sama skapi þá verðum við bara að taka því og halda áfram."
Þrjár umferðir eru eftir af mótinu og KR situr í botnsætinu með 7 stig, 5 stigum á eftir Aftureldingu en 6 stigum á eftir Þór/KA og öruggu sæti, en Þór/KA á leik til góða.
„Þetta leggst vel í mig því það er ennþá séns. Við höldum í sénsinn og höldum í vonina og við munum bara gefa hjarta og sál í þetta þangað til að mótið klárast," sagði Rebekka að lokum.
Viðtalið í heild má sjá í spilaranum hér að ofan.