„Ég er mjög ánægður með markið og stoðsendinguna en þessi dýfa hún var kjánaleg. Það verður hraunað yfir mig fyrir þetta,“ sagði Arnþór Ari Atlason eftir 4-1 sigur Fram á Fjölni í Grafarvogi.
„Það verður hraunað yfir mig og gert grín að mér en ég verð bara að taka því. Ég er með breitt bak. Við vorum frábærir í dag, frábær liðsheild en dýfan setur smá strik í reikninginn.“
Arnþór Ari lagði upp annað mark Fram, fékk gult spjald fyrir að dýfa sér og skoraði glæsilegasta mark leiksins tveimur mínútum síðar.
„Markið var eiginlega það eina sem ég gat gert til að bjarga þessu. Það var gott að skora og í raun alveg kominn tími á það. Vonandi halda mörkin áfram að koma.“
„Við vorum með gott plan fyrir leikinn. Við mættum til leiks frá fyrstu mínútu og vorum mun ákveðnari en þeir. Við vildum miklu meira vinna leikinn. Við vitum að við erum ótrúlega góðir í fótbolta og við þurfum bara að mæta í hvern einasta leik og þá munu stigin koma.“
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.
Athugasemdir
























