„Hann var virkilega sætur því við þurftum að upplifa að vera tveimur mörkum undir í leiknum og með þessa erfiðu stöðu. Það er ótrúlegur karakter sem við sýndum í þessum leik og rúmlega það. Við endum á að vinna 2 - 3 en hefðum átt að skora 3-4 mörk í viðbót," sagði Sigurvin Ólafsson þjálfari FH eftir 2 - 3 sigur á Keflavík suður með sjó í dag en staðan í hálfleik var 2 - 1 fyrir Keflavík.
Lestu um leikinn: Keflavík 2 - 3 FH
„Þetta mark Gumma í fyrri hálfleik var rosalega mikilvægt til að fá smá blóð á tennurnar. Það var þá bara eitt mark og maður vissi að seinni hálfleikurinn færi allur fram á vallarhelmingi Keflavíkur útaf veðrinu.."
„Það var svo planið inni í klefa að halda þeim inni í teig hjá sér og hnoða inn að minnsta kosti tveimur mörkum. Það var frábært hvernig strákarnir pressuðu þá upp og héldu það út í 45 mínútur í seinni hálfleik. Jafna leikinn frekar snemma og komast yfir stuttu eftir það. Það var alveg hálftími eftir af leiknum þá. Þá var enginn að leggjast niður heldur héldum við áfram að pressa og hefðum átt að skora 3 - 4 í viðbót."
FH var komið í fallsæti á nýjan leik eftir tap í Vestmannaeyjum fyrir tíu dögum en er nú komið í mun vænlegri stöðu á botninum eftir tvo sigra í röð gegn Leikni og Keflavík.
„Það mátti ekki seinna vera, það eru bara tveir leikir eftir og þetta er alls ekki komið. Við þurfum að ná í úrslit í næstu umferð líka og það er markmiðið," sagði Venni sem í spilaranum að ofan er líka spurður út í nýja mótafyrirkomulagið.