Njarðvík hafði betur gegn sterkum Austfirðingum er liðin mættust í 32-liða úrslitum Mjólkurbikarsins í dag.
Gestirnir úr KFA komu skemmtilega á óvart. Þeir voru sterkir á útivelli og óheppnir að taka ekki forystuna í fyrri hálfleik en í þeim síðari sýndu Njarðvíkingar gæði sín og uppskáru af lokum sigur gegn góðu KFA liði.
Lestu um leikinn: Njarðvík 4 - 1 KFA
„Við ætluðum okkur að vinna þennan leik og við ætluðum okkur áfram. Við vissum að þetta yrði alvöru slagur og fyrri hálfleikur svona á móti vindinum og svo fannst mér við bara herða tökin jafnt og þétt og hafa mjög góða stjórn á þessu." Sagði Arnar Hallsson þjálfari Njarðvíkur eftir leikinn í dag.
Njarðvíkingar byrjuðu frekar hægt í leiknum og má segja að KFA hafi verið sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en Njarðvíkingar tóku svo öll völd í þeim síðari.
„Það sem gerðist í fyrri hálfleiknum var það að við áttum alveg frábæra æfingu í gær og vorum alveg fljúgandi og menn langaði svo mikið að framlengja þeim góða fótbolta sem þeir voru að spila og þeir voru að svekkja sig á því hvað þetta var erfitt á móti vindinum og hvað þeir náðu ekki að sýna það sem þá langaði að sýna og við náðum að sturta þeim vonbrigðum niður og einbeita okkur af því að þetta yrði ekki dagurinn sem við myndum spila okkar besta fótbolta en við gætum gert talsvert betur ef við hættum að svekkja okkur svona mikið á því að ekki allt væri að ganga."
Njarðvíkingar verða í pottinum þegar dregið verður í 16-liða úrslit Mjólkurbikarsins og vonast Arnar til þess að fá Bestu deildarlið.
„Miðað við stígandan hvernig þetta hefur verið með dráttinn hjá okkur til þessa þá fáum við sennilega Lengjudeildarlið en við vorum svona að láta okkur dreyma um að fá eitthvað úr Bestu deildinni og við verðum bara að sjá hvort það rætist."






















