,,Þetta var erfiður leikur og við lentum undir. En ég var mjög ánægður með okkar karakter, við komum til baka, jöfnuðum leikinn, skoruðum sigurmark og héldum þessu," sagði Gunnlaugur Jónsson þjálfari ÍA sem fór á topp 1. deildar karla í dag með 2-1 sigri á Leikni.
Lestu um leikinn: ÍA 2 - 1 Leiknir R.
,,Það er ekki hægt að biðja um það betra. Þetta var toppliðið sem við vorum að mæta hérna og það lið sem hefur aðeins fengið á sig eitt mark og ekki tapað leik. Ég er mjög ánægður með að hafa náð að vinna þá og náð þessu toppsæti af þeim."
Freyr Alexandersson þjálfari Leiknis kvartaði undan dómgæslu Valdirmars Pálssonar í leiknum en Gunnlaugur benti á að tapliðin kvarti oft undan dómgæslu.
,,Dómgæslan er eins og nánast í hverjum einasta leik. Það eru einhver atvik sem eru umdeild og stundum eru þau umdeildari hjá andstæðingunum. Þetta er eins og gengur. Hann dæmdi að mínu viti alveg ágætlega í dag. Auðvitað eru einhver atvik sem menn eru ósáttir með en ég kvarta ekki núna."
ÍA er komið á topp deildarinnar og Gunnlaugur stefnir á að enda mótið þar.
,,við gáfum það út að við ætlum að fara upp um deild þurfum við að vera í 1. eða 2. sæti. Við erum komnir í 1. sæti núna og það er eitthvað sem við ætlum að halda í."
Athugasemdir























