„Þetta er sætt. Þetta var frekar rólegt hjá okkur í fyrri hálfleik... í seinni var þetta allt önnur saga," sagði Adam Ægir Pálsson, leikmaður Vals, eftir 1-3 sigur gegn Fram í Bestu deildinni í kvöld.
Lestu um leikinn: Fram 1 - 3 Valur
Adam lagði upp tvö mörk í leiknum en annað markið var sérstaklega áhugavert. Aron Jóhannsson bjargar á línu og upp fer Valur í sókn. Adam fær boltann og kemur honum á Tryggva Hrafn Haraldsson sem skorar.
„Það var gott að fá Tryggva inn ferskan. Hann var helvíti góður þegar hann kom inn á," sagði Adam og hrósaði Aroni fyrir sinn þátt í markinu. „Þetta er mikill liðssigur. Við erum allir að leggja okkur gríðarlega mikið fram til að ná árangri. Það skiptir máli eins og sést í dag. Ég hlakka til að sjá hlaupatölurnar því þetta var helvíti erfiður leikur."
Adam var stoðsendingakóngurinn í fyrra. Ætlar hann að ná því aftur í sumar?
„Ég stefni á að vinna titla, það er mitt fyrsta markmið. Ef stoðsendingarnar koma líka, þá er það fínt. Ég er líka að stefna á að skora nokkur. Ég vil gera mitt besta fyrir liðið."
Hægt er að sjá viðtalið í heild sinni hér að ofan.
Athugasemdir






















