Rúnar Kristinsson var sáttur með spilamennsku sinna manna í KR í 2-2 jafntefli gegn Víkingi R. í Bestu deildinni í kvöld.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 2 - 2 KR
Rúnar er hins vegar ósáttur með hegðun Kjartans Henry Finnbogasonar og ræddi samningsmál hans að leikslokum. Fyrstu fjórar mínútur viðtalsins hér fyrir ofan eru um leikinn í kvöld en svo er Rúnar spurður út í Kjartan Henry og hans mál. Rúnar er ósáttur með að hafa verið sakaður um lygar.
„Kjartan baðst undan því að klára tímabilið með okkur því hann vildi fá frið og tíma til að hugsa. Hann fékk, eins og frægt er orðið, blað í hendurnar til að skrifa undir. Það er formsatriði að skrifa undir þetta þar sem KR ákvað að nýta sér ákvæði í samningnum. Ég taldi og hélt að þetta væri formsatriði en hafði ekki hugmynd um hvað stóð í því. Það er búið að bjóða Kjartani að setjast niður með okkur og semja um næsta ár," sagði Rúnar og útskýrði stöðu mála.
„Þetta fór illa í Kjartan sem sendi út Twitter færslu á föstudeginum. Daginn fyrir leik. Ég ákveð hverjir eru í hóp og hverjir ekki, það þurfa allir að fylgja sömu reglum, það er enginn stærri en KR og það er enginn sem fær að gera eitthvað af sér og komast upp með það. Það eru afleiðingar og Kjartan hefur því miður brotið ýmislegt sem ég er ekki sáttur með."
Rúnar útskýrði stöðu mála ítarlega í viðtalinu sem má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.
Sjá einnig:
Klásúlan sem varð til þess að KR setti Kjartan út í kuldann
Kjartan Henry botnar ekki í ummælum Rúnars: Vitleysan náð nýjum hæðum