Garnacho vill ekki til Arabíu - Bayern gæti reynt við Trossard - Ferguson hefur gert munnlegt samkomulag við Roma
   mið 27. júlí 2022 12:31
Elvar Geir Magnússon
Svona var sumarglugginn í Bestu - Óvænt tíðindi á Hlíðarenda
Víkingur fékk Danijel Djuric.
Víkingur fékk Danijel Djuric.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Lasse Petry er kominn aftur í Val.
Lasse Petry er kominn aftur í Val.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Brynjar Gauti fór úr Stjörnunni í Fram.
Brynjar Gauti fór úr Stjörnunni í Fram.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
FH kallaði Úlf Ágúst  til baka.
FH kallaði Úlf Ágúst til baka.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Sumarglugganum hér á landi var lokað á miðnætti í gær. Samt sem áður gætu dottið inn tíðindi af erlendum leikmönnum á næstu dögum. Hægt var að skila inn félagaskiptum af leikmönnum erlendis frá þó ekki væru öll pappírsvinna kláruð, svo þó glugginn sé lokaður eiga þó væntanlega enn eftir að detta inn einhverjar (Staðfest) fréttir.

Þó íslenski glugginn sé lokaður verður glugginn enn opinn víða í Evrópu, til dæmis er hann opinn í Noregi og Danmörku út ágústmánuð og til 11. ágúst í Svíþjóð. Félög erlendis eiga því enn möguleika á því að sækja íslenska bita.

Það er að mestu ljóst hvernig leikmannahópar Bestu deildarinnar sem klára mótið munu líta út og hér í þessari samantektarfrétt skoðum við það helsta sem félögin gerðu í glugganum.

BREIÐABLIK - Enginn inn
Það eru fáir veikir blettir á toppliði Breiðabliks sem var rólegt í sumarglugganum. Blikar lánuðu bakvörðinn Adam Örn Arnarson í Leikni en hann hafði aðeins komið við sögu í tveimur leikjum í Bestu deildinni.

Ísak Snær Þorvaldsson er umtalaðasti leikmaður Íslandsmótsins og mikla vangaveltur um það hvenær hann haldi út í atvinnumennsku á ný. Ekki er ólíklegt að Breiðabliki berist tilboð í hann á næstu vikum.

VÍKINGUR - Danijel fyrir Kristal
Kristall Máni Ingason er að fara í Rosenborg í komandi mánuði og verður ekkert grín að fylla skarð hans enda einn besti leikmaður deildarinnar í sumar. Víkingur sótti annan ungan og spennandi leikmann, Danijel Djuric sem var í herbúðum Midtjylland.

KA - Slóvenskur miðvörður
Oleksiy Bykov og Sebastiaan Brebels yfirgáfu KA í lok júní en félagið hefur styrkt varnarleik sinn með því að fá slóvenska varnarmanninn Gaber Dobrovoljc. Tilkynnt var um komu hans á mánudaginn. Fyrr í glugganum kom svo Hrannar Björn Steingrímsson aftur til baka úr láni hjá Völsungi.

STJARNAN - Þrír leikmenn seldir
Nokkrir leikmenn yfirgáfu Stjörnuna í glugganum, þar á meðal Óli Valur Ómarsson sem fór til Sirius í Svíþjóð. Þá voru tækifærin sem varnarmaðurinn Brynjar Gauti Guðjónsson og danski sóknarmaðurinn Oliver Haurits fengu af skornum skammti í Garðabænum og þeir seldir til Fram og HK.

VALUR - Óli Jó sótti Petry í þriðja sinn
Valsmenn fengu óvænt tvo leikmenn á gluggadeginum. Danski miðjumaðurinn Lasse Petry fylgdi Ólafi Jóhannessyni á Hlíðarenda en þetta er í þriðja sinn sem Ólafur sækir Petry. Þá kom hægri bakvörðurinn Arnór Ingi Kristinsson frá Leikni.

Fyrr í glugganum komu markvörðurinn Frederik Schram frá Lyngby í Danmörku og danski sóknarmaðurinn Frederik Ihler frá AGF. Þá fór Almarr Ormarsson í Fram.

KR - Tíðindalítið í Vesturbæ
Rólegur sumargluggi í Vesturbænum en Emil Ásmundsson sem hefur lent í erfiðum meiðslum var lánaður heim til Fylkis.

KEFLAVÍK - Misstu þann úkraínska
Keflvíkingar létu félagaskiptamarkaðinn vera þetta sumarið en misstu Ivan Kaliuzhnyi sem fór í indversku Ofurdeildina.

FRAM - Öflugur gluggi hjá þeim bláu
Fram átti mjög öflugan sumarglugga. Varnarmaðurinn Brynjar Gauti Guðjónsson var keyptur frá Stjörnunni, einmitt leikmaðurinn sem bláliðar þurftu. Þá kom Almarr Ormarsson aftur til félagsins frá Val.

Ástralski miðvörðurinn Hosine Bility fór aftur til Midtjylland en hann stóð ekki undir væntingum á lánsdvöl sinni hjá Fram. Þá var Aron Snær Ingason lánaður til Þróttar í toppbaráttuna í 2. deildinni.

FH - Sótti ekki miðvörð
Þrátt fyrir mikið umtal um þörf FH á að ná sér í miðvörð þá virðast Hafnfirðingar hafa látið það vera í glugganum (nema verið sé að klára pappírsmál á einhverjum erlendum).

Sóknarleikmaðurinn Úlfur Ágúst Björnsson var kallaður til baka í FH úr láni í Njarðvík. Lasse Petry fór óvænt í Val á gluggadeginum eftir stutta veru í Kaplakrikanum.

ÍBV - Gaui Lýðs fór í Lengjudeildina
Miðjumaðurinn Kundai Benyu fékk leikheimild með ÍBV í lok júní en hefur reyndar aðeins spilað einn leik síðan, vegna meiðsla.

Á gluggadeginum í gær fór markvörðurinn Halldór Páll Geirsson til KFS en hann missti stöðu sína í marki ÍBV til Guðjóns Orra Sigurjónssonar fyrr í sumar. Þá bárust þau stóru tíðindi rétt fyrir gluggalok að Guðjón Pétur Lýðsson, sem hefur að mestu vermt varamannabekkinn í sumar, væri farinn til Grindavíkur.

LEIKNIR - Pólverjinn farinn heim
Leiknismenn fengu í gær bakvörðinn Adam Örn Arnarson lánaðan frá Breiðabliki. Í kjölfarið fór Arnór Ingi Kristinsson í Val. Þá hefur pólski vængmaðurinn Maciej Makuszewski yfirgefið félagið en hann stóð ekki undir væntingum í Breiðholti.

ÍA - Tveir Danir sóttir
Botnlið Skagamanna sótti tvo danska leikmenn í glugganum, sóknarmanninn Kristian Lindberg og varnarmanninn Tobias Stagaard. Þá fékk ÍA Sigurð Hrannar Þorsteinsson til baka frá Gróttu í glugganum.

Guðmundur Tyrfingsson yfirgaf ÍA og hélt heim í Selfoss og Hallur Flosason fór á láni til Aftureldingar.
Athugasemdir