Á föstudagskvöld klukkan 19:15 mætast Víðir í Garði og KFG í úrslitaleik Fótbolti.net bikarsins á Laugardalsvelli. Spennandi verður að sjá hvaða lið verður fyrsti sigurvegarinn í þessari nýju keppni sem er bikarkeppni neðri deilda.
Tryggðu þér miða hérna
Tryggðu þér miða hérna
Tvíburabræðurnir Björn og Kristján Mássynir þjálfa Garðabæjarliðið en þeir spjölluðu við Arnar Laufdal fréttamann Fótbolta.net á Laugardalsvellinum í dag.
Þeir tala um að þessi nýja keppni verði væntanlega enn meira keppikefli fyrir félög í neðri deildum þegar þau sjá hversu glæsileg umgjörðin er.
„Það er alvöru gulrót fyrir liðin í neðri deildunum að geta keppt um alvöru bikar."
Víðismenn spila á náttúrulegu grasi en heimavöllur KFG er gervigras. Gefur það Víði forskot fyrir leikinn á föstudag?
„Þetta gras er nú það gott, við höfum spilað grasleiki á misjöfnum völlum í sumar. Þetta gæti verið eitthvað forskot fyrir þá en ég held að það muni ekki skipta neinu máli því þetta er svo flottur völlur hvort sem er."
Það má búast við góðri mætingu úr Garðabænum en nánast allir leikmenn KFG koma upp úr yngri flokka starfi Stjörnunnar.
„Við munum spila á okkar sterkasta liði. Okkar lið má eiga það að þetta eru 95% uppaldir Stjörnumenn og eru sigurvegarar. Þeir eiga langflestir titla í yngri flokkum á ferilskrá sinni."
Viðtalið má sjá í heild í sjónvarpinu hér að ofan en beðist er velvirðingar á hljóðtruflunum sem koma af og til.
27.09.2023 10:30
Rútuferð og upphitun á Ölveri hjá Víðismönnum - KFG á Dúllubarnum
Athugasemdir