„Bara ótrúlega svekkjandi, ég myndi bara segja það, já ótrúlega svekkjandi," sagði Alexandra Jóhannsdóttir eftir 2-0 tap gegn Þýskalandi í A-deild Þjóðadeildarinnar á Laugardalsvelli í kvöld.
„Mér fannst erfitt að koma inn í leikinn en ég er með góða liðsfélaga í kringum mig sem hjálpuðu mér að komast inn í þetta," sagði Alexandra en hún kom inn á 72. mínútu í stöðunni 0-1.
Eftir að hafa varist hættulegu þýsku liði, stöðugum fyrirgjöfum og hornspyrnum frá byrjun leiks var svekkjandi að fá á sig mark úr vítaspyrnu á 64. mínútu leiksins.
„Mér fannst það bara ógeðslega svekkjandi, þær sóttu og áttu einhver færi en mér fannst við líka alveg eiga einhver færi og mættum þeim í öllum návígum og svoleiðis sko. Þannig það var bara ótrúlega svekkjandi að fá á sig þetta víti."
Lestu um leikinn: Ísland 0 - 2 Þýskaland
Frammistaðan í kvöld var mun betri en frammistaðan í leiknum ytra þar sem Ísland sá aldrei til sólar og steinlá 4-0. Alexandra var ekki með í því verkefni vegna meiðsla og þurfti að horfa á þann leik í sjónvarpinu.
„Það sást bara allt annað andlit hérna inn á vellinum og bara krafturinn og allt svoleiðis hjá stelpunum. Þetta var bara allt annað lið inn á vellinum í dag."
Alexandra kom inn á sem varamaður í leikjunum tveimur í þessum glugga en eins og áður sagði var hún að snúa til baka í hópinn eftir meiðsli. Hún segist ekki hafa verið ósátt að byrja ekki leikina.
„Nei nei, ég skil það alveg, ég er búin að æfa núna í einhverjar þrjár vikur eftir meiðsli síðan í sumar þannig ég er bara enn að koma inn í þetta. Þú sérð miðjumennina, það er bara erfitt að komast inn í liðið, þú labbar ekkert inn í þetta lið," sagði Alexandra.
Nánar er rætt við Alexöndru í spilaranum hér að ofan. Þar ræðir hún meðal annars stöðuna úti hjá Fiorentina og framhaldið með landsliðinu.






















