Selfyssingar verða í pottinum þegar dregið verður í 32-liða úrslit bikarkeppninnar á morgun. Þeir unnu sigur á ÍA eftir framlengingu og vítaspyrnukeppni í kvöld en þessi tvö lið eru líkleg til afreka í 1. deildinni í sumar.
„Þegar þeir misstu mann útaf var erfitt að spila á móti þeim. Þeir eru með reynda menn þarna aftast sem kunna að hreyfa sig og eru búnir að skipuleggja sig það vel að það gekk erfiðlega að finna glufur," segir Logi en hans lið spilaði ellefu gegn tíu stærstan hluta leiksins.
„Þetta tók því miður of langan tíma því miður, við áttum að geta klárað þetta á 90 mínútum. Fyrst 120 mínútur dugðu ekki þá var gripið til vítaspyrnukeppni."
„Þetta eru tvö góð lið. Við höfum spilað við þá áður í vetur og árangur þeirra á vetrarmánuðum hefur verið með miklum ágætum. Þetta er klárlega lið sem kemur til með að vera að berjast á toppi deildarinnar svo það er erfitt að spila á móti þeim."
Markvörðurinn Jóhann Ólafur Sigurðsson var hetja Selfyssinga í vítaspyrnukeppninni en hann varði fjórar spyrnur. „Hann gerði mjög góða hluti. Jóhann hefur æft svakalega vel í vetur," segir Logi.






















