,,Það var frábær vinnusemi í liðinu. Við vorum hlaupandi af fullum krafti í 90 mínútur og vorum til í að skora fleiri," sagði Bjarni Jóhannsson þjálfari Stjörnunnar eftir 5-2 sigur liðsins á Fram í kvöld.
Garðar Jóhannsson skoraði í öðrum leiknum í röð fyrir Stjörnuna í kvöld en hann skoraði þá með fallegu skoti beint úr aukaspyrnu.
,,Hann hlýtur að vera ánægður með mig. Ég held að ég sé eini þjálfarinn sem hefur treyst honum fyrir því að taka aukaspyrnu."
Magnús Karl Pétursson hefur staðið vaktina í marki Stjörnunnar í fyrstu leikjunum. Magnús var varamarkvörður Stjörnunnar fyrir tímabilið en hann lék síðast með Álftanesi í þriðju deildinni árið 2007.
,,Maggi er að verja mark okkar með ágætum. Í leiknum í dag varði hann í tvígang í stöðunni 2-2 mjög mikilvægar vörslur sem gerir það að verkum að Framarar koma framar á völlinn og við nýtum okkur það vel."
Hér að ofan má sjá viðtalið í heild sinni sem og myndband af fögnuði Stjörnunnar eftir leik.






















