Grétar Sigfinnur Sigurðarson stóð eins og klettur í vörn KR-inga þegar liðið vann 3-0 sigur gegn MSK Zilina frá Slóvakíu í undankeppni Evrópudeildarinnar í kvöld. Hann var að vonum ánægður með sigurinn og sagðist hafa haft fulla trú á verkefninu.
„Áhorfendur og þeir sem voru í kringum þetta höfðu kannski ekki jafn mikla trú á þessu en við ætluðum okkur alltaf að sigra þennan leik. 3-0 kannski ekki það sem við ætluðum okkur en við ætluðum að sigra þennan leik. Við erum á góðu rönni og við höfum gríðarlega trú á okkar getu. Það kemur mér ekki á óvart að við sigruðum en það er mikið verk fyrir höndum. Þeir eru með sterkan heimavöll og við þurfum að gera vel,“ sagði Grétar Sigfinnur við Fótbolta.net.
„3-0 hefði venjulega getað dugað manni en þetta er náttúrulega svakalegt atvinnumannalið sem var í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í fyrra. Það verður erfitt að slá þá út en við ætlum okkur að gera það. Þetta er aldrei gefið, þeir geta komið og hlutirnir geta fallið með þeim eins og þeir gerðu svolítið með okkur í seinni hálfleiknum. Það getur allt skeð þannig að við ætlum okkur bara að einbeita okkur að okkar leik. Við ætlum ekki að fara að falla í neina gryfju bara af því að við erum með yfirhöndina núna. Við ætlum bara að vinna þetta lið.“
KR-ingar héldu góðri pressu í leiknum og í stað þess að falla til baka gegn sterku liði Zilina og spiluðu sóknarbolta líkt og þeir hafa gert í sumar.
„Við töluðum mikið um það að við ætluðum ekkert að falla í einhverjar skotgrafir. Við ætluðum að halda boltanum, spila honum á milli okkar og sækja. Það var það sem við ætluðum að gera, auðvitað þurfum við að vera þéttir ef við ætlum að vinna. Ég man eiginlega ekki eftir einu dauðafæri sem þeir voru að fá,“ sagði Grétar við Fótbolta.net.
Viðtalið má sjá í heild sinni í myndbandinu hér að ofan.






















