
Fótbolti.net náði tali af Theodóri Sveinjónssyni þjálfara Þróttar eftir 3-0 skell gegn KR. Með sigri í leiknum hefði Þróttur getað komist upp fyrir KR og sent Vesturbæjarliðið í fallsæti en það var aldrei uppi á teningnum þar sem Þróttarar áttu sinn slakasta leik í sumar á meðan KR-ingar léku á alls oddi.
,,Það sem við sýndum hér í dag er ekki ásættanlegt fyrir Pepsi-deild kvenna," sagði Theodór svekktur eftir leik.
,,Við erum að læra. Þetta er harður heimur. KR-liðið kemur hér feyknasterkt og ætlar að vinna. Það jarðar okkur í fyrri hálfleik gjörsamlega. Át okkur upp á miðjunni, sama hvað við reyndum að gera".
,,Ef þú spilar 60-70% á móti liði eins og KR, eða bara hvaða liði sem er í Pepsi-deildinni, þá er þér refsað og þá er það bara tap," sagði Theodór meðal annars en nánar er rætt við hann í sjónvarpinu hér að ofan.