,,Þetta er mjög mikilvægt, við ætluðum okkur að ná í þrjú stig og slíta okkur aðeins frá botninum sem og við gerðum og vorum svo að vonast til að úrslit féllu með okkur, sem og þau gerðu líka að mér skilst. Þá erum við komnir aðeins lengra frá botninum en við vorum fyrir þennan dag," sagði Ásmundur Guðni Haraldsson þjálfari Gróttu eftir 3-1 sigur á Fjarðabyggð í dag.
Ásmundur Guðni sneri aftur sem leikmaður í dag þegar hann skipti sjálfum sér inná í framlínuna seint í leiknum. Hans fyrsti leikur í sumar.
,,Það eru búin að vera töluverð meiðsli á okkur og það var nánast sjálfvalið í hópinn. Ég var bara frekur í dag og nýtti kannski þetta eina tækifæri sem ég hef til að spila með Gróttu í 1. deild. Ég gerði það í miklum vinskap við aðra leikmenn í liðinu, en skórnir fara örugglega jafn hratt upp á hilluna og þeir komu niður í dag."
,,Ég vona bara að allir verði heilir og þá þarf ég ekkert að vera að klæða mig í þessa leiki. Við eigum fjóra fimm stráka sem eru fyrir utan og ég vona bara að þeir fari að komast í lag svo við getum farið að spila aftur á okkar sterkasta liði."
,,Það er erfitt að standa fyrir utan þetta en ég hef svosem gert það í síðustu 3-4 árin, ekkert verið með að neinu ráði, og er heldur ekkert þannig lagað með í þessu. En ég er til staðar og til taks ef allt fer til andskotans. Ég hefði viljað fá 2-3 sendingar inn í teig, og þá hefði ég pottþétt náð að setja eitt mark. Það er alveg pottþétt."
Nánar er rætt við Ásmund í sjónvarpinu hér að ofan.






















