Guimaraes, Isak, Kimmich, Diaz, Branthwaite, Mainoo og fleiri góðir í slúðri dagsins
Segir íslenska liðið betra en það ísraelska - Þakkar Mikael fyrir sitt framlag
Alfreð um ummæli Hareide: Kem alltaf með sama markmið í landsliðið
Númi: Það er ein helsta ástæðan fyrir því að ég fór í Bestu
Siggi Höskulds um Gylfa: Þetta mun sprengja deildina
Blikar tóku ekki þátt í kapphlaupinu um Gylfa - „Tökum honum fagnandi"
Vildi finna hamingjuna aftur - „Ótrúlega erfitt andlega"
„Hugsaði allan tímann um hversu geggjað það væri að gera þetta með Fram"
Ein sú besta frá því í fyrra samdi í Víkinni - „Mikill meðbyr í kringum félagið"
Axel Óskar: KR langskemmtilegasti og mest spennandi kosturinn
Varð strax forvitinn um Breiðablik - „Fótboltinn hérna er sterkari"
Markakóngurinn mættur í Kópavog - „Búinn að segja mér marga góða hluti"
Birkir aftur heim í Þorpið - „Búið að vera í hausnum á manni lengi"
Á leið í fimmta tímabilið á Íslandi - „Ánægður að þeir völdu mig"
Sjáðu þrumuræðu Þorvalds Örlygssonar sem tryggði honum formannsembættið
Ingibjörg: Hafði alltaf trú
Telma: Vissi að við kæmum brjálaðar til baka
Sveindís: Lofaði að bæta upp fyrir það og fannst ég gera það
Glódís: Við sem leikmenn, þjóðin og KSÍ þurfum öll að stíga upp
„Búin að fá einhverja Twitter-kalla á sig en gerir okkur að sterkara liði"
Steini: Allt í lagi á meðan maður fær ekki slag
banner
   mið 01. apríl 2020 15:15
Elvar Geir Magnússon
Tímavélin: Mark Bjarna og stríðsástandið á Skaganum
Tímavél sem birtist upphaflega 2012
Greinin í Fréttablaðinu daginn eftir leik.
Greinin í Fréttablaðinu daginn eftir leik.
Mynd: Tímarit.is
Markið hans Bjarna átti heldur betur eftir að draga dilk á eftir sér.
Markið hans Bjarna átti heldur betur eftir að draga dilk á eftir sér.
Mynd: Fótbolti.net - Gísli Baldur
Einar Orri Einarsson í leik með Keflavík.
Einar Orri Einarsson í leik með Keflavík.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Frétt um leikinn sem Benedikt Bóas Hinriksson skrifaði.
Frétt um leikinn sem Benedikt Bóas Hinriksson skrifaði.
Mynd: Tímarit.is
Eitt allra umtalaðasta mark sem skorað hefur verið í íslenska fótboltanum kom 4. júlí 2007 þegar ÍA og Keflavík mættust á Skaganum. Leikurinn endaði 2-1 fyrir ÍA en heimamenn komust 2-0 yfir í leiknum með marki Bjarna Guðjónssonar. Það er markið sem allir muna eftir.

Keflvíkingar höfðu sparkað boltanum út af svo hægt væri að huga að meiddum leikmanni. Bjarni fékk svo boltann eftir innkast og skaut frá miðju yfir Ómar Jóhannsson markvörð sem var kominn út úr marki sínu.

Eftir markið hópuðust menn að Bjarna sem var ekki líkur sjálfum sér það sem eftir lifði leiks. Hann tapaði boltanum í markinu sem Keflvíkingar skoruðu.

Allt sauð upp úr á Skaganum. Páll Gísli Jónsson markvörður ÍA fékk rautt spjald strax eftir mark Keflavíkur. Einar Orri Einarsson, varamaður Keflvíkinga, fór svo sömu leið fyrir tæklingu á Bjarna.

Rétt áður en Kristinn Jakobsson dómari flautaði leikinn af sagði hann Bjarna að hlaupa af stað í átt að búningsklefum. Eftir að lokaflautið gall geystust menn að félagsheimili ÍA þar sem mörg ljót orð voru látin falla og meðal annars kom til handalögmála.

Guð má vita hvað gekk á
„Þetta er Bjarna Guðjónssyni til skammar, enn eina ferðina, og Skaganum til háborinnar skammar,“ sagði Kristján Guðmundsson, þá þjálfari Keflavíkur, í viðtali við Stöð 2 strax eftir leikinn.

„Bjarni skammaðist sín svo mikið að hann ákveður að hlaupa þarna inn. Þvílík er skömm hans. Hvað gerðist svo veit ég ekki.“

Henry Birgir Gunnarsson, blaðamaður á Fréttablaðinu, var á leiknum og skrifaði í grein sína: „Eftir því sem sjá mátti úr blaðamannastúkunni voru hendur látnar skipta við innganginn í búningsklefana og Guð má vita hvað gekk á þar fyrir innan. Þar var
allt í hers höndum og í raun stríðsástand á Akranesi."


Formaðurinn sakaður um ölvun
Gísli Gíslason, formaður ÍA, sagði í viðtali við Fótbolta.net að Bjarki Freyr Guðmundsson markvörður Keflavíkur hefði lagt hendur á einn af leikmönnum Skagamanna.

„Hann fór bæði mikinn og geyst, bæði eftir leikinn og þegar hann var búinn í sturtu líka. En það sem kemur til viðbótar er að börn leikmanna og eiginkonur horfa uppá svona hluti og með þeim hætti sem hann valdi sér orðin á þessum stað og það er fullkomlega óásættanlegt," sagði Gísli.

Kristján Guðmundsson sagði við Fréttablaðið daginn eftir leik að Gísli hefði farið ölvaður inn í klefa Keflavíkur eftir leikinn.

Kristján vildi lítið tjá sig um þetta mál þegar Fótbolti.net hafði samband við hann og bað hann um að rifja atvikið upp árið 2012. „Ég var ósáttur við aðdraganda og eftirmála þessa leiks. Af virðingu við félögin tvö og alla þá fjölmörgu sem að þessum leik komu mun ég ekki rifja upp einstök atriði tengd honum," sagði Kristján.

Mikið var fjallað um þetta mál í fjölmiðlum eftir leik, í blöðum, útvarpi, Kastljósinu, Íslandi í dag og svo mætti áfram telja. Dramatíkin var allsráðandi.

„Það er von Knattspyrnudeildar að óheiðarleiki innan vallar sé metin til jafns við óheiðarleika utan vallar, samanber mútumál á Ítalíu, fjárhagsmál á Englandi og Frakklandi sem og svindl leikmanna í öllum þessum löndum," sagði í yfirlýsingu Keflavíkur.

„Ég ætlaði aldrei að meiða Bjarna"
Samkvæmt leikskýrslu kom mark Bjarna á 79. mínútu leiksins. Á 80. mínútu var Einar Orri settur inn sem varamaður og hann fékk svo brottvísun á 83. mínútu fyrir háskalega tæklingu á Bjarna. Margir telja víst að Einar hafi verið settur inn til höfuðs Bjarna.

„Það voru ýmsar samsæriskenningar en engar réttar," sagði Einar þegar Fótbolti.net rifjaði þennan atburð upp með honum 2012.

„Þessar kenningar voru misgáfulegar. Menn sögðu að Stjáni (Kristján Guðmunds) hafi sett mig inn til þess eins að strauja Bjarna Guðjóns eftir það sem hann gerði. Það var aldrei neitt í því. Ég sá náttúrulega á bekknum hvað gerðist og var vitaskuld ekki ánægður. Ég var samt aldrei að hugsa eitthvað svona."

„Þessi tækling var vissulega glæfraleg. Það var hiti í leiknum og það hefði verið sterkt að ná þessari tæklingu og taka manninn og boltann. Ég er ekki viss um að þetta hefði alltaf verið rautt en í þessum leik og miðað við hvað hefði áður gengið á var þetta alltaf rautt."

En hvernig var ástandið eftir þetta atvik? „Ég hef sjaldan lent í öðru eins og þegar ég var að labba af vellinum. Fúkyrðin fuku yfir mann út um allt frá áhorfendasvæðinu. Menn öskruðu á mig en ég var ekkert mikið skárri, ég lét mann og annan heyra það," sagði Einar.

„Svo sit ég inn í klefanum þegar ég heyri að allt er brjálað fyrir utan. Þá var greinilega eitthvað mikið í gangi og ég heyrði þvílík læti. Ég veit ekki nákvæmlega hvað hitastigið fór upp í í klefanum hjá okkur, það voru allavega einhver 50 stig. Allir voru með sínar skoðanir."

„Svo man ég bara að við brunuðum í burtu og töluðum ekki við einn mann þarna. Síðan blés þetta allt upp eftir leikinn og allar þessar kenningar komu upp. Ég ætlaði aldrei að meiða Bjarna, þetta var bara baráttan og það hefði vel getað verið einhver annar sem þarna fékk boltann. Manni leið aldrei vel að heyra fólk stimpla mann sem einhvern stríðsmann í þessu atviki," sagði Einar Orri.

Þetta umdeilda mark Bjarna og það sem eftir fylgdi gleymist seint. Högg, hrákur og ljót orð voru látin falla. Úr varð mikill farsi í fjölmiðlum og ljóst að einhverjir eru enn ekki fullkomlega sáttir en nokkrir neituðu viðtölum í tengslum við þessa upprifjun.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner