
„Klárlega sterk tilfinning að við hefðum geta skorað mark og tekið þrjú stig en að taka eitt stig á móti Noregi er betra en núll stig," sagði Emilía Kiær Ásgeirsdóttir eftir markalausa jafnteflið við Noreg í Þjóðardeild kvenna í dag.
Lestu um leikinn: Ísland 0 - 0 Noregur
„Mér fannst við skapa mest klárlega og eins og ég sagði þá áttum við að skora en við vörðumst líka okkar marki mjög vel og við verðum að taka það út úr þessum leik líka."
„Þetta eru bara allt öðruvísi lið sem mætast hér í dag. Íslenska liðið og liðsheildin sem við erum með er bara allt önnur en norska liðið finnst mér. Noregur er með mjög góða einstaklinga sem spila í Barcelona og Lyon."
Emilía segir að það sem vantaði upp á sóknarleikinn er að vera með meiri yfirvegun á boltanum á síðasta þriðjungi vallarins.
„Við getum alveg verið meira rólegri á boltanum þegar við komum framar, við erum alveg með tæknina og hæfileikana til þess en það er bara eitthvað sem við erum að vinna í og verðum að halda áfram að vinna í."