Andrea Rán Snæfeld, leikmaður Breiðabliks, var að vonum ánægð eftir 1-0 sigur á Val fyrr í kvöld. Sigurinn tryggir Blikum áframhaldandi veru á toppi deildarinnar nú þegar Íslandsmótið er hálfnað. Andrea sagðist hafa verið með góða tilfinningu fyrir leiknum.
Lestu um leikinn: Breiðablik 1 - 0 Valur
„Ég fann það bara um leið og við komum á grasið þarna úti. Þetta var alveg fullkomið gras. Maggi Bö búinn að klippa þetta vel og svo komum við bara inná og við sýndum hörku og mættum í fyrstu tæklingu. Komnar til að vinna.“
Leikurinn var skemmtilegur áhorfs, sérstaklega í fyrri hálfleik, og bæði lið mætt til að sækja sigur.
„Ég held að allir hafi komið í þennan leik til að vinna. Þetta var náttúrulega stór leikur og það var barist um mikið og þetta hafðist í kvöld.“
Það var eitt mark sem skildi liðin að í kvöld og það kom úr vítaspyrnu seint í leiknum. Andrea Rán segir vítaspyrnudóminn hafa verið réttan og var ekkert smeyk við að fara sjálf á vítapunktinn í þessum mikilvæga leik.
„Mér fannst þetta vera víti. Alexandra var tosuð niður og þetta var inn í vítateig.“
„Maður er búinn að æfa þetta og maður er bara undirbúinn, sama hvort það er stórleikur eða ekki.“
Eins og fyrr segir eru Blikar í efsta sæti deildarinnar eftir 9. umferðir og Andrea Rán er ánægð með uppskeruna hingað til.
„Við hefðum alveg viljað hafa tekið öll stig en við vissum alveg að leikir vinnast og tapast en við erum á toppnum eftir helminginn þannig að við erum bara ánægðar.“
Hægt er að horfa á allt viðtalið við Andreu Rán í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir