„Þetta var virkilega sterkur sigur. Valsliðið er náttúrulega eitt af bestu liðunum en við erum það líka,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Breiðabliks, eftir mikilvægan 1-0 sigur á Val. Steini var eðlilega alsæll með sigurinn og sagðist hafa einbeitt sér að sínu liði í undirbúningi fyrir leikinn frekar en að velta Valsliðinu fyrir sér.
Lestu um leikinn: Breiðablik 1 - 0 Valur
„Ég er svosem ekkert þannig í neinum svakalegum pælingum í kringum þetta. Við einbeitum okkur meira að okkur sjálfum. Hvernig við viljum nálgast leikinn og bæta okkar leik. Mér fannst við gera það virkilega vel í dag.“
„Við vorum öguð og skipulögð og opnuðum okkur ekki. Þær fengu eitt færi í fyrri hálfleik og það var smá skjálfti í okkur í byrjun en mér fannst við nálgast verkefnið vel. Við vorum að spila leikinn heilt yfir bara virkilega vel. Sköpum okkur nokkur mjög góð færi, dauðafæri. Þær fengu svo eitt dauðafæri undir lokin þegar leikmaður hjá mér rennur en voru annars ekkert að skapa. Mér fannst við bara spila leikinn vel og ég er mjög ánægður með þennan leik.“
Nú þegar deildin er hálfnuð eru Blikar á toppnum. Steini er ánægður með þann árangur en segir ótímabært að fagna nokkru fyrr en í haust.
„Maður kvartar aldrei yfir því að hafa unnið 8 leiki af 9. Við erum bara sátt við okkar leik í dag og um það snýst þetta. Lifa í núinu, horfa á næsta verkefni. Þetta heldur bara áfram. Við fáum ekkert fyrir að vera efst eftir fyrri umferð og við getum ekki fagnað einu eða neinu gagnvart því en við fögnum hverjum sigri og það er það sem við höldum áfram að gera.“
Nánar er rætt við Steina í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir