„Auðvitað sáttur með að hafa jafnað leikinn en mér fannst við alveg fá tækifæri til að ná í þrjú stig. Við vorum að spila nokkuð vel en ætli þetta hafi ekki verið sanngjart í endann." sagði Ásgeir Eyþórsson, fyrirliði Fylkis eftir 1-1 jafnteflið við KA í Árbænum í kvöld.
Lestu um leikinn: Fylkir 1 - 1 KA
„Við vorum öflugir til að byrja með og allan fyrri hálfleikinn, fengum fína sénsa, einhver færi þótt þau hafi ekkert verið rosalega mörg en svo dettum við aðeins niður í byrjun seinni hálfleiks en svo fannst mér við hættulegri til að stela þessu alveg í lokin."
„Við erum í erfiðri stöðu, hvert stig er helvíti mikilvægt þannig það var mjög mikilvægt að ná í allaveganna eitt stig."
„Andinn í hópnum er góður, þó við séum búnir að vera í leiðindarstöðu allt tímabilið en við höfum bullandi trú á þessu og þetta snýst um hvar við endum í lok móts. Við þurfum bara að detta á smá skrið og hýfa okkur aðeins upp og við höfum fulla trú á því að við gerum það."