„Mér líst bara vel á þessa spá, þetta var alveg viðbúið eftir að við urðum tvöfaldir meistarar í fyrra. Mér líst vel á liðið og hlakka til," sagði Júlíus Magnússon, fyrirliði Víkings, við Fótbolta.net.
Júlíus var til viðtals í tilefni af því að Víkingi er spáð Íslandsmeistaratitlinum í spá Fótbolta.net fyrir Bestu deildina.
Júlíus var til viðtals í tilefni af því að Víkingi er spáð Íslandsmeistaratitlinum í spá Fótbolta.net fyrir Bestu deildina.
Sjá einnig:
Spá Fótbolta.net - 1. sæti: Víkingur
„Við erum með öðruvísi lið, við erum með fleiri leikmenn sem geta breytt leikjum og gert hluti upp á eigin spýtur. Við missum tvo algjöra leiðtoga og maður hugsar þá út í andlega styrkinn hjá hinum sem eru eftir. Við þurfum að ná andlega styrknum á sama stað og hann var í fyrra og stilla okkur saman."
Júlíus tók við fyrirliðabandinu í vetur. „Fyrir mér var það alls ekki sjálfgefið. Það er maður í liðinu sem er búinn að spila 300+ leiki og er einn besti leikmaður liðsins í langan tíma. Það var alls ekki sjálfgefið fyrir mér en þetta var bara stuttur fundur hjá Kára og Arnari og eftir það var ljóst að þetta yrði svona. Ég var tilbúinn í hlutverkið enda verið í þessu hlutverki í yngri landsliðunum."
Bjóstu við því að Halldór Smári yrði fyrirliði liðsins eftir að Kári og Sölvi hættu?
„Já, ég bjóst alveg við því bara upp á virðinguna að gera. Hann er fyrirliði í klefanum og höfðingi. Það virða hann allir, það hlusta allir á hann og er með góða punkta. Hann er kannski að taka svolítið við af Sölva og Kára í því. Hann er algjör leiðtogi og mun vonandi hjálpa mér í þessu."
„Að sjálfsögðu er ég stoltur, við erum tvöfaldir meistarar og ég er kannski yngri en aðrir fyrirliðar. Maður verður að bera virðingu fyrir þessu hlutverki og taka því hlutverki alvarlega," sagði Júlíus.
Viðtalið í heild má sjá í spilaranum að ofan.
Athugasemdir
























