„Þetta var mjög kærkomið. Við börðumst eins og ljón í dag og áttum skilið þessi þrjú stig í kvöld.“ sagði Orri Sveinn Segatta, varnarmaður og markaskorari Fylkis í kvöld, eftir 3-0 sigur á ÍA í Árbænum.
Lestu um leikinn: Fylkir 3 - 0 ÍA
Orri segir að Simeone væri stoltur af þessum seinni hálfleik hjá Fylki. Verjast í 45 mínútur og setja svo mark í lokin til að klára leikinn.
„Vá, þvílíkt mark. Þetta var svo fallegt að standa af sér 45 mínútur af hornum og fyrirgjöfum og skora svo í lokin. Simeone væri stoltur af þessu held ég.“
Það var baráttuandi í Fylkismönnum í dag og Orri var stoltur af liðinu og varnarleiknum.
„Þetta er geggjað. Ítölsku ræturnar bara þarna, tæklingar. Henda sér í allt, fórna sér í alla bolta, við vorum geggjaðir í vörninni í dag og gerðum það alveg hiklaust.“
Það var geggjað veður á höfuðborgarsvæðinu í dag en Orri sagði að það hafi verði allt of heitt í dag, hann hefði viljað lægðina sem var í gær.
„Það var bara allt of heitt, allt of heitt. Maður hefði viljað lægðina sem var í gær en við tökum þessu. Frábært að sjá svona marga á vellinum í kvöld.“ sagði Orri Sveinn.
Viðtalið við Orra má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.