„Það er ekkert skemmtilegra en að vinna bikar. Sérstaklega þennan bikar. Þetta er bara úrslitaleikur. Það er fullt af tilfinningum og þetta er bara æðislegt,“ sagði Hildur Antonsdóttir í samtali við Fótbolta.net eftir 2-1 sigur á Stjörnunni í bikarúrslitum.
Lestu um leikinn: Stjarnan 1 - 2 Breiðablik
„Þetta var hörkuleikur í 90 mínútur og hefði getað dottið báðum megin. Við náðum að setja tvö mörk í fyrri hálfleik sem gerðu okkur gott og síðan lágu þær reyndar smá á okkur í lokin en við héldum vel. Fengum eitt mark á okkur en svo sigldum við þessu bara í höfn.“
Hildur var í liði Breiðabliks sem varð bikarmeistari 2016. Þá kom hún inná sem varamaður en í dag lék hún allar 90 mínúturnar.
„Það er skemmtilegra að spila allan leikinn en það er alltaf gaman að vinna bikar,“ sagði Hildur um muninn á því að byrja leikinn eða koma inn af bekknum.
„Við fögnum þessu í kvöld en byrjum svo að hugsa aftur um deildina,“ sagði Hildur að lokum en nánar er rætt við hana í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir