„Við vorum ekki góðir, sérstaklega ekki í fyrri hálfleik. Við vorum svo einum fleiri lungan af leiknum en náum ekki að nýta okkur það.“ sagði Árni Freyr Guðnason, þjálfari ÍR, eftir 1-0 tap gegn Keflavík í kvöld.
Lestu um leikinn: ÍR 0 - 1 Keflavík
Hvað fór úrskeðis hjá ÍR í dag og afhverju náðu þeir ekki að nýta liðsmuninn í dag?
„Við náum að nýta liðsmuninn þannig að við erum að koma okkur í ágætis stöður en búum ekki til nógu góð færi og það skorti ákveðin gæði og hugmyndir. Stundum verður maður bara óþolinnmóður og við þurfum að læra af því.“
Keflvíkingar skora snemma og ná að halda það út, heldur Árni að fyrsta markið í svona leik hafi verið mikilvægt?
„Það er alltaf gott að skora fyrst og ná stjórn á leiknum. Þeir hefðu getað skorað fleiri, við vorum alveg hræðilegir fyrstu mínúturnar og mjög ólíkir okkur sjálfum. Þegar við náðum aðeins að vinna í því vorum við betri en því fór sem fór.“
ÍR-ingar fengu Gils Gíslason á láni frá FH út tímabilið í vikunni.
„Hann færir okkur mikinn hraða og auka kraft sóknarlega. Hann kom inn á í dag og var fínn. Við hentum honum í djúpu laugina en ég held að hann mun hjálpa okkur þegar hann kemst meira inn í þetta.“
Næsti leikur ÍR er Breiðholtsslagur gegn Leikni.
„Þetta er bara einn leikur. Það er margt annað í þessu blessaða lífi sem maður hefur meiri áhyggjur af en að tapa einum fótboltaleik en við þurfum að koma gíraðir í þann leik. Við þurfum að spila okkar leik og þá erum við góðir.“ sagði Árni.
Viðtalið við Árna má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.