Elvar Geir Magnússon skrifar frá Halmstad
Guðjón Baldvinsson, leikmaður Halmstad, verður að sjálfsögðu í stúkunni á morgun þegar Ísland mætir Svíþjóð í 8-liða úrslitum EM kvenna. Guðjón spjallaði við Fótbolta.net í miðbæ Halmstad í dag.
„Við höfum horft á þetta félagarnir, ég og Kiddi (Kristinn Steindórsson), og fengum miða á leikinn gegn Svíþjóð og ætlum klárlega að mæta á völlinn," sagði Guðjón.
„Ég er mjög bjartsýnn á þetta. Íslenska liðið á eftir að koma skemmtilega á óvart. Ég segi að þetta fari 1-1 og við vinnum í framlengingu."
Sænskir fjölmiðlar eru sigurvissir en Guðjón þekkir sænska blaðamenn vel.
„Þeir fiska eftir skemmtilegum fyrirsögnum og ef menn segja eitthvað þá ýkja þeir það upp. Það hjálpar bara íslenska liðinu að það sé svona hroki í Svíunum,"
„Það þýðir ekki að segja neitt við sænska blaðamenn. Þetta eru oftast þurr viðtal því maður passar hvað maður segir."
Athugasemdir























