Pálmi Rafn Pálmason, miðjumaður KR, var gestur í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X-inu síðasta laugardag en hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.
Pálmi kom heim úr atvinnumennsku fyrir ári síðan og gekk þá í raðir KR-inga.
Pálmi kom heim úr atvinnumennsku fyrir ári síðan og gekk þá í raðir KR-inga.
„Til að byrja með var ótrúlega gaman að koma heim. Umfjöllunin er mögnuð og áhuginn er miklu meiri en ég bjóst við. Þetta er tiltölulega hratt og stutt mót svo það er fátt sem má bregðast eins og við kannski kynntumst. Gæðin í deildinni eru miklu betri en maður hefði haldið. Þetta var mjög forvitnilegt og skemmtilegt tímabil þó það hafi ekki endað vel hjá okkur," segir Pálmi en KR náði ekki að standa undir væntingum í fyrra.
„Ég hreinlega veit ekki hvað gerðist. Það var ekki eins og við höfum ekki viljað gefa okkur alla í þetta. Við misstum taktinn og sjálfstraustið í leiðinni eftir því sem við misstum af fleiri stigum. Ég get ekki bent á neina ástæðu."
„Ástæðan fyrir því að maður vill vera í KR er þessi pressa og áhugi. Menn eru auðvitað fljótir upp og niður en maður vill vera í liði sem vill vinna allt."
Pálmi er sá leikmaður sem oftast var brotið á síðasta tímabil í Pepsi-deildinni. Hann viðurkennir að vera ekki mjög vinsæll af mótherjum sínum inni á vellinum.
„Ég held að ég sé ekki rosalega vinsæll en þetta er engin vinsældakeppni. Ég er örugglega frekar pirrandi inni á velli en ég er ekki að reyna þetta. Ég kann engar skýringar á þessu," segir Pálmi sem verður í meira sóknarhlutverki í ár eftir að KR fékk varnarmiðjumennina Finn Orra Margeirsson og Michael Præst.
„Það styttist í mót og eins og þetta lítur út verð ég í holunni. Mér líður vel þar og ég kemst í fleiri færi þar en í fyrra. Vonandi mun ég setja fleiri mörk en síðasta tímabil. Mér finnst ákaflega gaman að komast í námunda við teiginn."
Í viðtalinu ræðir Pálmi um sögusagnir sem voru í vetur um að hann væri á förum frá KR og einnig um æfingaferðina til Bandaríkjanna þar sem KR mætti Andrea Pirlo og David Villa.
Athugasemdir