Hlíf Hauksdóttir, leikmaður Vals í Pepsi-deild kvenna, var að vonum ánægð með sigur liðsins á Reykjavíkurmótinu í kvöld en þetta var í sjöunda sinn í röð sem liðið vinnur þennan titil.
Hlíf byrjaði á varamannabekknum hjá Val í kvöld en kom inná í hálfleik. Hún skoraði sigurmark Vals í leiknum en það var af fallegri gerðinni þar sem hún lyfti boltanum snyrtilega yfir markvörð Fylkis og í fjærhornið.
,,Ég er virkilega ánægð með þetta. Fylkisliðið það leynir alltaf á sér og það er ekkert gefið á móti þeim þannig við erum mjög ánægðar," sagði Hlíf við Fótbolta.net í kvöld.
,,Mæta fastar fyrir og vera ekki ódýrar. Þær eru alltaf klárar og maður þarf að vera á tánum."
,,Ég veit ekki hvort ég skilaði þessum titli í hús, bara liðsheildin. Skiptir engu hver klárar þetta, síðasta touchið. Við erum búnar að æfa virkilega vel en allar kannski þungar á sér á þessu móti."
,,Það sést oft á síðasta touchinu stundum að við erum ný komnar af lyftingaræfingu. Edda og Helena eru að láta okkur finna vel fyrir því á æfingum þannig ég held að við verðum flottar í sumar."
Valur vann þarna sinn sjöunda Reykjavíkurmótstitil í röð en liðið stefnir á að berjast um Lengjubikarinn einnig sem hefst á næstu dögum.
,,Allir titlar eru vel þegnir á Hlíðarenda en ég geri ráð fyrir því að við tökum þann titil líka í Lengjubikarnum," sagði hún að lokum.
Hægt er að sjá viðtalið í heild sinni hér fyrir ofan.
Athugasemdir























