,,Ég ætla ekki að ljúga neinu. Það er þungu fargi af okkur létt," sagði Hermann Hreiðarsson þjálfari ÍBV eftir 1-0 sigur á Fylki í kvöld en þetta var fyrsti sigur liðsins í sjö leikjum.
,,Eftir því sem lengra líður þá verður þetta erfiðara og maður verður efins með ýmsa hluti en við höfum haldið okkur við okkar prinspp og haldið okkar leik áfram."
Aziz Kemba, kantmaður frá Úganda, spilaði sinn fyrsta leik með ÍBV í dag. ,,Hann kom nokkuð ferskur inn í þetta fyrir okkur. Hann var fínn á kantinum og hann gat keypt smá tíma fyrir okkur. Hann er flinkur og snarpur. Hann náði að taka menn á og bíða eftir að menn kæmu fram völlinn."
Ragna Lóa Stefánsdóttir, eiginkona Hermanns, þjálfar kvennalið Fylkis. David James sagði í viðtali eftir leik að hún yrði ekki ánægð með sigur ÍBV en Hermann segir það ekki rétt. ,,Hún hélt pottþétt með ÍBV enda Eyjamaður mikill," sagði Hermann.
David James spilaði sinn 1000. leik á ferlinum í dag og átti flottan leik.
,,Hann var líklega besti maður vallarins. Hann gerði engin mistök og gerði allt sem hann gerði frábærlega. Menn muna eftir sínum 1000. leik og við vildum gera þetta eftirminnilegan leik fyrir jákvæða hluti og það tókst. Við gátum gert þetta fyrir gamla," sagði Hermann.
Hér að ofan má sjá viðtalið í heild sinni.
Athugasemdir























