Viktor Jónsson fékk verðskuldað maður leiksins eftir sinn þátt í 3-2 sigri á KR í dag. Hann hefur verið á eldi síðustu leiki líkt og ÍA liðið í heild sinni. Skoraði þriðja markið í jafn mörgum leikjum í dag.
„Virkilega sáttur, þetta var mjög erfiður leikur. Maður sá svolítið gamla KR aftur í þessum leik, erfitt að brjóta þá, en trúin og sjálfstraustið í liðinu bara frábær".
Sjálfstraustið eflaust gott enda liðið í dúndur sigurgöngu.
„Við viljum klára þetta mót vel. Við vitum að ef við spilum eins og i síðustu leikjum þá mun þetta skila okkur öruggu sæti og góðum úrslitum, þurfum að halda því áfram og setja fókus á það strax aftur á morgun. Það eru þrír leikir eftir og getur allt gerst ennþá".
Aðspurður um innkomu Lárus Orra í þjálfarastólinn svaraði Viktor: „Fyrst og fremst frábær gæji, fær mikla virðingu frá leikmönnum og það er augljóst að hann veit hvað hann er að segja. Búinn að gera rosalega vel eftir að hann kom inn".
Jón Þór Hauksson var látinn fara og Lárus Orri tók sæti hans en Viktor fór fögrum orðum um fyrri þjálfara einnig.
„Ég dýrka Jón Þór, líka frábær gæji og þjálfari. Við verðum líka að líta í eigin barm við strákarnir varðandi það mál og með breytingum fara menn upp á tærnar. Tók kannski svolítið langan tíma en það er það sem hefur gerst".
Viðtalið í heild má finna í spilaranum hér að ofan