Kristall Máni Ingason skoraði eitt og lagði upp tvö er Víkingur R. vann Keflavík 4-1 í Víkinni í kvöld en liðin áttust við í 10. umferð Bestu deildarinnar.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 4 - 1 Keflavík
Kristall hefur farið vel af stað á þessu tímabili og er kominn með þrjár stoðsendingar í fyrstu þremur leikjunum og svo gerði hann sitt fyrsta mark í deildinni í dag. Hann segir að liðið hafi verið ákveðið að svara fyrir 3-0 tapið gegn ÍA.
„Topp fyrri hálfleikur eftir slysið sem gerðist á Skaganum en við sýndum það í dag að við erum helvíti góðir í fótbolta."
„Við kannski þurftum þess ekkert en auðvitað viljum við gera það. Þetta er ekkert stress og svona gerist. Við erum það gott lið og viljum vinna alla leiki," sagði Kristall við Fótbolta.net.
Eins og áður kom fram þá skoraði hann eitt og lagði upp tvö en hann var ekki saddur.
„Ég hefði viljað skora annað mark í seinni."
Kristall fékk að finna verulega fyrir því í leiknum en það hafði örlítil áhrif á hann. Leikmaðurinn pirraði sig á því og sparkaði Erni Bjarnason niður og fékk gult spjald fyrir en Ernir hafði fyrr í leiknum fengið spjald fyrir að negla Kristal niður.
„Já, eins og þú sást þá fékk ég gult spjald fyrir það en svona er þetta og það er bara geggjað þegar það er verið að negla mig niður. Auðvitað, það er alltaf verið að koma harkalega aftan í mann og auðvitað vill maður að þeir fái gult spjald."
„Hann er fínn núna meðan hann er heitur en þegar ég leggst í rúmið held ég að ég verði í basli," sagði hann ennfremur er hann var spurður út í ástandið á líkamanum.
Athugasemdir























