„Við gerðum þetta frábærlega, þrjú stig eru velkomin í hús“ sagði Pétur Pétursson, þjálfari Vals, eftir 2-1 sigur gegn Þrótti í Bestu deildinni í kvöld.
Lestu um leikinn: Þróttur R. 1 - 2 Valur
Pétur var ósáttur með umgjörðina í kringum kvennaleikina samanborið við karlaleikina.
„Þetta er toppleikur í deildinni, af hverju er ekki panel eins og á öllum karlaleikjum. Maður spyr sig það er enginn, það er enginn fjórði dómari frá KSI. Þetta er stærsti leikurinn í umferðinni. Mér finnst þetta vanvirðing enn og aftur.“
Pétur var einnig ósáttur með sýnileika kvennafótboltans.
„Þeir sögðust ætla að bæta allt saman varðandi auglýsingar og annað. Ég hef ekki séð að það sé leikur hjá kvennaliði í Bestu deildinni en ég veit alltaf hverjir eru að spila í karlaliðunum. Það þarf að hypja upp um sig buxurnar, mér finnst þetta bara lélegt. Við ætluðum að efla áhorf í kvennafótboltanum, fá fólk á völlinn. Við erum ósýnileg finnst mér.“
Pétur endaði þó viðtalið með skilaboðum til íslensku þjóðarinnar. „Ég biðla til íslensku þjóðina, hvernig væri að mæta á kvennaleikina í Garðabæ, í Keflavík, í Vestmannaeyjum, í Kópavogi, á Akureyri og fylla vellina og sýna að þið standið með okkur.“
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.