,,Ég held að það hafi ekkert farið úrskeiðis. Við vorum að spila við mjög gott lið frá Selfossi og þeir unnu, það er ekkert flókið," sagði Sigurður Helgason þjálfari Gróttu eftir 3-0 tap liðsins gegn Selfossi á heimavelli í kvöld.
,Við lentum snemma undir og það gjörbreytti leiknum fyrir okkur. Mér fannst baráttuframlag minna manna í góðu lagi en þeir skora þrjú mörk eftir fyrirgjafir og þetta var erfitt."
Selfyssingar komust í 2-0 í fyrri hálfleik og Jón Daði Böðvarsson bætti þriðja markinu við í upphafi síðari hálfleiks.
,,Við erum 2-0 undir í hálfleik og töluðum um að koma grimmari í síðari hálfleik en þá fá þeir hornspyrnu og skora. Mér fannst við vera að koma inn í leikinn en þá fengum við þetta högg."
Grótta er með eitt stig eftir tvo leiki en liðinu var spáð neðsta sæti deildarinnar fyrir tímabilið.
,,Við vissum það fyrir að þetta yrði barátta. Þessi deild verður feykierfið og það eru öflug lið í henni."
,,Við munum ekki gefast upp, við stefnum á að halda áfram. Við þurfum að landa einum sigri fljótlega," sagði Sigurður að lokum.
Hér að ofan má sjá viðtalið í heild sinni.























