
Guðjón Þórðarson var ánægður með framlag sinna manna í BÍ/Bolungarvík þrátt fyrir 4-1 tap gegn KR í undanúrslitum Valitor bikarsins á Ísafirði í dag. Hann hrósaði KR-ingum í hástert.
„Lengst um leiks var þetta allt eins og við lögðum upp með, KR-ingar eru bara með gott lið og ef þeir finna lyktina komast þeir á bragðið. Þeir refsuðu okkur grimmilega þarna á örfáum mínútum, þetta gerðist svo hratt að ég var að undirbúa tvöfalda skiptingu og sá ekki þriðja markið. Svo kom fjórða markið bara í stöðu þegar við vorum að sækja og áttum reyndar ágætis tilraun til að komast í 3-2,“ sagði Guðjón við Fótbolta.net eftir leikinn.
„Ef þú telur tilraunirnar og telur færin sem þetta gekk út á, þá er 4-1 kannski ekki að gefa rétta mynd af leiknum, ekki þessar 90 mínútur. En það er ekki spurt að því og þegar staðan var orðin 2-1 og gerði ég breytingu og ég náði reyndar ekki að gera hana, þá var orðið 3-1. Eftir að staðan var 3-1 reyndum við að koma okkur inn í leikinn en þá fá þeir skyndisókn og skora fjórða markið. En í tilraunum og öllu uppsettu gefur þetta kannski ekki rétta mynd. En það breytir engu hvort þú tapar 4-1 eða 2-1 í bikar.“
Guðjón viðurkennir að það hafi verið gaman að mæta Bjarna Guðjónssyni og hrósar hann syni sínum í hástert.
„Það var bara gaman, Bjarni er náttúrulega klassa knattspyrnumaður og það sást mjög vel í dag hversu góður hann er og jafnframt hversu mikilvægur hann er KR liðinu. Hann var ekki með í Evrópuleiknum en spilaði mjög vel og oft á tíðum fannst mér hann fá fullmikinn tíma, en hann er klókur að losa sig og fá svæði og hann þarf ekki nema eina snertingu og þá er boltinn klár. Svo getur hann sent hann út um allan völl. Bjarni var mjög góður í dag,“ sagði Guðjón.
BÍ/Bolungarvík er á sínu fyrsta tímabili í fyrstu deild eftir að hafa komið upp úr 2. deildinni síðasta sumar og viðurkennir Guðjón að það sé ekki amalegur árangur að koma liðinu í undanúrslit bikarsins.
„Við erum allavega sáttir og ég er stoltur af strákunum að hafa farið þetta langt. Það voru hindranir á veginum sem við áttum ekki von á að ryðja úr vegi, eins og Breiðablik, en við gerðum það örugglega. Við unnum liðin sem við þurftum að fara í gegnum með tiltölulega góðum hætti þó að allir leikir séu erfiðir. En ég er mjög sáttur það sem af er sumri hvernig þetta hefur gengið og hvernig þróunin hefur verið. Nú einbeitum við okkur bara að deildinni og að halda haus þar.“
Viðtalið við Guðjón má sjá í heild sinni hér að ofan.