„Þetta er svekkjandi en við erum sáttir að hafa náð inn jöfnunarmarkinu. Við erum enn inni," sagði Guðmundur Baldvin Nökkvason, leikmaður U19 landsliðsins, við Fótbolta.net eftir 1-1 jafntefli gegn Noregi í öðrum leik liðsins á Evrópumóti U19 landsliða í kvöld.
Lestu um leikinn: Ísland U19 1 - 1 Noregur U19
Íslenska liðið spilaði mjög vel í seinni hálfleiknum sérstaklega og verðskuldaði liðið jöfnunarmarkið glæsilega sem Eggert Aron Guðmundsson skoraði.
„Ef við hefðum tapað þá værum við farnir heim. Við sóttum undir lokin og það skilaði."
Um markið flotta sagði hann: „Þegar litli Messi skaut? Það var rosalegt. Hann er svo góður, þetta var geggjað. Ég hélt að það myndi koma annað í kjölfarið."
Er þetta gælunafnið hans Eggerts? 'Litli Messi'.
„Já, við þurfum að fá það í gegn, litli Messi. Hann er einstakur," sagði Guðmundur en hann og Eggert eru liðsfélagar í Stjörnunni.
Næsti leikur Íslands er á móti Grikklandi, það er síðasti leikurinn í riðlinum. Með sigri eiga strákarnir möguleika á því að fara áfram en úrslit í hinum leiknum þurfa einnig að falla með okkur. „Við þurfum að klára okkar og sjá hvað gerist."
Hægt er að sjá allt viðtalið í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir























