
„Þetta er eiginlega bara ólýsanlegt," sagði Linda Líf Boama, leikmaður Víkings, eftir 3-1 sigur gegn Breiðabliki í úrslitaleik Mjólkurbikars kvenna. Víkingur varð í kvöld fyrsta Lengjudeildarliðið í sögunni til að vinna þennan bikar.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 3 - 1 Breiðablik
„Við lögðum svo mikla vinnu í þetta og við uppskárum vel í dag. Það getur enginn sagt að við eigum þetta ekki skilið."
Víkingar voru í kvöld að mæta toppliði Bestu deildarinnar en þær komu þjóðinni á óvart.
„Bikarinn er bara allt önnur keppni. Liðið sem vildi þetta meira vann í dag."
Linda spilaði ekkert í fyrra vegna meiðsla en hún hefur verið að koma sterk inn í Víkingsliðinu í ár. Hún var einn besti leikmaður vallarins, hún spilaði frábærlega. Linda og Nadía Atladóttir, sem skoraði tvö af mörkum Víkings, voru að vinna mjög vel saman.
„Þegar hún er fyrir framan markið þá skorar hún, þú þarft bara að koma henni í réttu færin. Nadía er geggjaður leikmaður og það er heiður að fá að spila með henni."
Hvernig hefur verið að koma til baka?
„Ég ætlaði að koma til baka og skora 20 mörk, vera leikmaðurinn sem ég var í Lengjudeildinni 2019. Þetta er búið að vera hægt og stígandi, en maður verður bara betri með hverjum leiknum. Ég verð að gera mér grein fyrir því að ég var meidd og það tekur tíma. Við unnum bikarinn og ég er að gera eitthvað rétt. Ég vil þakka John fyrir traustið. Hann tók mig inn í hópinn og hafði tröllatrú á mér, sem hjálpaði mér 100 prósent."
Linda segir að Laugardalurinn hafi verið rauður og svartur í kvöld. Allt viðtalið má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.
Athugasemdir