FH tók á móti ÍBV í Kaplakrika fyrr í dag þar sem um mikilvægan leik var að ræða fyrir bæði lið. FH eru í mikilli baráttu um mögulegt Evrópusæti og Eyjamenn eru í fallbaráttunni.
Lestu um leikinn: FH 2 - 1 ÍBV
„Bara geggjað að vinna, sýndum karakter. Við lentum 1-0 undir verðskuldað og vorum ekki góðir í fyrri hálfleik, lítið flot á boltanum en löguðum það, vorum betri í seinni hálfleik“ sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, eftir leikinn.
Eins og Heimir kemur inn á var fyrri hálfleikur nokkuð dapur hjá hans mönnum og hann gerir þrefalda skiptingu í hálfleik. Aðspurður hvað það var sem vantaði hjá hans liði framan af segir hann:
„Þegar þú spilar við ÍBV þá þarftu að vera með grunnatriði leiksins á hreinu. Mér fannst við ekki vera með þau á hreinu. Reyndar allt í lagi í byrjun en svo varð þetta bara hægara og hægara og við fengum verðskuldað á okkur mark í lok fyrri hálfleiks.“
Viðtalið við Heimi má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.