FH spáð 10. sæti í Bestu deild kvenna
„Mér líst alveg stórvel á þá spá. Nei nei, við tökum því bara. Það er okkar að afsanna þá spá og við gerum það á fótboltavellinum," sagði Guðni Einarsson, þjálfari FH, í samtali við Fótbolta.net á dögunum.
FH er spáð tíunda sæti Bestu deildarinnar í spá Fótbolta.net.
FH er spáð tíunda sæti Bestu deildarinnar í spá Fótbolta.net.
FH er nýliði í deildinni en liðið fór taplaust í gegnum Lengjudeildina í fyrra.
„Þetta var frábært tímabil, nánast fullkomið. Það var góð ára í Krikanum í fyrra. Þetta var samspil margra þátta. Liðið náði vel saman, þetta var þéttur og góður hópur. Auðvitað þurfa hlutir að falla með manni en andlegi þátturinn var á þá leið að stelpunum leið eins og þær gætu ekki tapað. Þær geta verið stoltar af þessum árangri."
„Ekkert nema hrós á leikmennina sem stóðu vaktina í fyrra," segir Guðni.
Sísí Lára hætt
Það hafa orðið nokkrar breytingar á leikmannahópi FH frá síðasta tímabili. Stærst er það líklega að Sigríður Lára Garðarsdóttir er hætt í fótbolta sökum veikinda. Hún var besti leikmaður Lengjudeildarinnar á síðasta tímabili.
„Það er gríðarlegt högg. Sísí skipti FH-liðið mjög miklu máli. Hún hefur verið algjör máttarstólpi og andlit liðsins út á við. Hennar leiðtogahæfileikar eru ótvíræðir. Við söknum hennar mikið en styðjum hana jafnframt í þeim verkefnum sem hún er að fást við núna. Hún á allar okkar þakkir og við erum stolt af því að hún líti á sig sem FH-ing í dag."
Sísí þótti vænt um tíma sinn í FH. „Hún kemur úr Eyjum og þeir sem eru þar vita að þetta snýst um svona fjölskyldustemningu. Hún talar sjálf um að hún upplifði það hjá FH," segir Guðni. „Það skipti hana miklu máli og þess vegna leið henni svona vel hjá okkur. Við gáfum henni og hún gaf okkur. Við söknum hennar mikið."
FH á að vera þarna
Þjálfari FH-inga er spenntur fyrir tímabilinu þó grasið sé ekki orðið grænt í Kaplakrika enn.
„Þó grasið sé ekki orðið grænt í Krikanum erum við FH-ingar mjög spenntir og fullir tilhlökkunar. Það eru forréttindi að vera í Bestu deildinni og þetta er verkefni sem við verðum að bera virðingu fyrir," sagði Guðni og bætti við:
„Við þurfum að sjá til þess að Fimleikafélagið verði áfram í efstu deild. Það skiptir miklu máli fyrir félagið að eiga bæði karla- og kvennalið í efstu deild. Annars getum við ekki kallað okkur stórt félag. FH á að vera þarna og við munum reyna að gera okkar til að sú verði raunin."
Hægt er að sjá viðtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.
Sjá einnig:
Spá Fótbolta.net fyrir Bestu kvenna: 10. sæti
Hin hliðin - Sunneva Hrönn Sigurvinsdóttir (FH)
Tók U-beygju og fór í hjúkrunarfræði - „Starf sem er mjög gefandi"
Athugasemdir























