
„Þeir eru yfir til að byrja með, við erum svolítið á hælunum og erum ekki alveg vissir hvernig við eigum að bregðast við. Svo eftir 2-0 þá er bara eitt lið inn á vellinum alveg þangað til að þeir fá eitthvað skíta skyndisóknarmark sem klárar leikinn svolítið," sagði Theodór Elmar Bjarnason, varafyrirliði KR, eftir leikinn gegn Víkingi í Mjólkurbikarnum. Víkingur hafði betur 4-1 og fer í bikarúrslitin en KR situr eftir með sárt ennið.
Elmar byrjaði með fyrirliðabandið í leiknum en lét Kennie Chopart hafa það í hálfleik þegar Daninn kom inn á.
Elmar byrjaði með fyrirliðabandið í leiknum en lét Kennie Chopart hafa það í hálfleik þegar Daninn kom inn á.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 4 - 1 KR
Víkingur skoraði tvö mörk á stuttum kafla um miðbik fyrri hálfleiks. Þeir skora svo þriðja og fjórða markið eftir að KR-ingarnir höfðu verið að leita að jöfnunarmarki.
„Þeir fá þriðja markið gjörsamlega gegn gangi leiksins, við búnir að þrýsta þeim vel niður og eiga frábæra spilakafla. Við áttum skilið að koma til baka en svo þegar við fáum þriðja markið er búið að slökkva neistann í okkur og þeir fá yfirhöndina aftur."
„Þetta var búið í 3-1, við búnir að eyða rosalega mikili orku í að koma til baka og hefðum viljað fá meira fyrir framlagið sem við lögðum í þetta. En við mætum bara sterku liði og þeir vissu alveg hvað þeir voru að gera. Þeir lögðust bara niður eftir 2-0 og þeir eru góðir í því, góðir að sækja hratt og með sterkan bekk til að setja ferska fætur inn á, þetta var bara vel spilað hjá þeim, en mér fannst við eiga skilið meira á góða kaflanum okkar."
KR-ingar kölluðu eftir vítaspyrnu í stöðunni 2-1 þegar Logi Tómasson fór í Sigurð Bjart Hallsson inn á vítateig Víkings. Sigurður Hjörtur Þrastarson dæmdi ekkert. Átti KR að fá víti?
„100%, mér fannst þetta 100% bakhrinding hérna inni í teig og eiginlega bara skandall að fá ekki vítið. En þeir mátu þetta svona."
„Þetta var að sjálfsögðu gult á Ekroth (í fyrri hálfleik) en dómarinn mat það ekki þannig. Mér fannst 50-50 boltarnir pínu halla á okkur. Til hvers eru heimavellir ef maður fær ekki aðeins meðbyr?" sagði Elmar. Viðtalið í heild má sjá í spilaranum efst.
Athugasemdir