„Við vorum allar bara mjög rólegar og ég held við höfum farið inn í leikinn eins og hvern annan leik. Við erum ósigraðar á heimavelli og við ætluðum ekkert að breyta því í dag,“ sagði Alexandra Jóhannsdóttir, nýkrýndur Íslandsmeistari, þegar Fótbolti.net spurði hana hvernig hefði verið að nálgast svona mikilvægan leik. Með sigri á Selfoss varð Breiðablik Íslandsmeistari og vinnur því tvöfalt í sumar.
Lestu um leikinn: Breiðablik 3 - 1 Selfoss
„Við fáum markið á okkur þarna í fyrri hálfleik en síðan sýnum við úr hverju við erum gerðar og klárum þetta í seinni hálfleik,“ sagði Alexandra en Blikar lentu undir í leiknum og áttu í vandræðum í fyrri hálfleik. Þær komust svo yfir á stuttum kafla í síðari hálfleik og Alexandra skoraði tvennu annan leikinn í röð.
„Ég hef nú aldrei verið mikill markaskorari en það er bara gaman að skora,“ sagði Alexandra hógvær.
Alexandra skipti yfir í Breiðablik í haust eftir að hafa leikið með Haukum í Pepsi-deildinni í fyrra. Haukar voru í harðri botnbaráttu allt síðasta tímabil og féllu úr deildinni en Alexandra er nú orðinn tvöfaldur meistari á sínu fyrsta tímabili með Blikum.
„Ég sé alls ekki eftir að hafa skipt og sé heldur ekkert eftir því að hafa verið í Haukum í fyrra. Það var svaka reynsla að vera þar og þurfa að spila vörn allt tímabilið. Hér er ég í öðruvísi hlutverki. Við erum miklu meira með boltann,“ sagði miðjumaðurinn öflugi en hún ætlar sér að spila áfram með Blikum á næsta ári.
„Það er planið að vera hér á næsta tímibili líka.“
Nánar er rætt við Alexöndru í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir